Þagnarskyldan

Nú er vælubíllinn staddur fyrir utan aðalstöðvar lögreglunnar í Reykjavík. Lögreglustóra án auglýsingar, sem var ráðin af vinkonu sinni sem var að segja af sér, finnst að sér vegið. Að verið sé að taka hana niður eftir átján ára flekklausan feril. Getur vel verið, en er þetta ekki sama manneskja og kom fram einkennisklædd í Mannlífi fyrir tveimur árum og drullaði yfir mágkonu sína fyrir að hafa sakað föður sinn, landsþekktan dóna, um níð? Lágmark að mæta í eigin fötum þegar þú heldur slíku fram. Svo þykist hún vera að berjast á móti heimilisofbeldi.

Lögreglustjóri sem vælir og skælir undan tengslum sínum við fráfarandi ráðherra á ekkert með að vera lögreglustjóri yfir Reykjavík. Þar er þörf á styrkari forystu. Hvar stendur að henni hafi verið skylt að afhenda gögn um hælisleitandann Tony Omos til ráðuneytisins. Hún var lögreglustjórinn á Reykjanesi og gat auðveldlega sagt „NEI“ og sagt Gísla Frey að fara réttar boðleiðir eða fokka sér. En nei, allt skal gert fyrir flokksfélaga og vini.

Reyndar skiptir ekki máli hvaða mann Tony Omos hefur að geyma. Skiptir ekki máli þó sögur segi að Tony og gengið hans í Keflavík hafi farið með hótunum og leiðindum að Fjölskylduhjálp Íslands þar í bæ, stundað mannsal og þaðan af verra. Aðalmálið er að þagnarskylda ríkisstarfsmanna var brotin. Og það er brottrekstrarsök hvernig sem á það er litið.

Kominn tími til að lögreglustjórinn í Reykjavík segi af sér og að sá mæti maður Stefán Eiríksson taki aftur við. Eini lögreglustjórinn sem hefur gengið í fótspor Theodore Roosevelt forseta Bandaríkjanna og lögreglustjóra í New York og gengið um götur borgarinnar með lögregluþjónum sínum um helgar. Sannur foringi deilir kjörum með undirmönnum sínum þegar mest á mæðir.

Sviplausir vesalingar

Við þjóðin eigum að skammast okkar fyrir að hafa sótt að Hönnu Birnu með hatri okkar. Svo segir okkar sviplausasti og versti forsætisráðherra sem við höfum nokkurn tíma haft. Ég tel niður dagana þar til þetta mannkerti gefst upp á embættinu og lætur okkur í friði.

En þess verður eflaust langt að bíða. Hann á eftir að sölsa fyrirhugaða olíuvinnslu á Austurlandi undir sig og föður hans í Kögun. Fyrr hættir hann varla að angra okkur landsmenn.

Álíka veruleikafirrtur er eigandi Hreint sem lætur pólska „þræla“ sína vinna í tólf daga samfleytt við að þrífa Landspítalann á móti tveimur dögum í fríi fyrir 214.000 kr. lágmarkslaun. Og kemur svo fram í fjölmiðlum og ver fyrirkomulagið eins og það sé hoggið í steinhellur af Guði. Enn einn milliðurinn sem makar krókinn á sparnaðarþörf ríkissins með undirboðum í verk. Og fer ekkert í felur með að hann lítur niður á erlenda vinnuaflið sitt sem hann lætur greiða fyrir undirboðið með laununum sínum.

Þessum tveimur aðilum á að sýna í tvo heimana. Koma þeim í skilning um að þeirra viðbjóðslega samfélag viljum við ekki hérna á Íslandi. Meintur sparnaður í heilbrigðisgeiranum og hin svokallaða leiðrétting veitir þessum mannleysum engan rétt til að níðast á þegnum þessa lands og arðræna.