Aumingi á ferð

„Julien Blanc has attracted widespread criticism for holding “dating seminars”, which suggest men harass and abuse women – including by choking them – as a way of attracting them.“ – The Independent.

Rosalega held ég að þessi gaur muni vera velkominn hingað! Græðir kannski ekki mikið á að halda námskeið í pikköpptækni íslenska karlpeningsins, en samt. Verður boðinn velkominn sem snillingur í hösli.

Hef séð svona kauða starfa. Þeir ná sínu fram með andlegu ofbeldi, frekju og sálfræði. Þeirra óvænta hegðun er vopn þeirra. Engin kona býst við slíku fyrir fram og verður því fórnarlamb. Maðurinn gengur jú bara ákveðið til verks, ekki satt? Ekkert við því að segja.

Svona menn á að berja umsvifalaust niður í götuna. Ekki einu sinni að leyfa þeim að opna munninn. Alls ekki hleypa þeim inn í landið. En það biðja 120.000 Bretar um með undirskriftum á netinu og ráðherra tekur undir. Aðferðir til að beita konur ofbeldi á ekki að vera söluvara. Og gaura sem mæta á slíka fyrirlestra á að fangelsa um leið.

Þetta er viðbjóðslegt samfélag!

Gísli Freyr Valdórsson féll á sverð sitt á elleftu stundu. Tók á sig sökina svo Hanna Birna gæti haldið áfram í embætti. Hvað ætli hann fái að launum fyrir fórnfýsnina? Án efa eitthvert feitt embætti, en bara ekki alveg strax. Kannski um leið og fjölmiðlageðveikinni linnir og allir eru hættir að hugsa um lekamálið í Innanríkisráðuneytinu.

Þessi ríkisstjórn er frá Djöflinum komin. Gerir allt til að halda í sína stöðu. Mörgum hægrisinnuðum sveitamanninum kann að finnast sök Gísla lítilvæg en sannleikurinn er sá að hann sveik þagnareið þann sem allir ríkisstarfsmenn skrifa undir. Það er skýr brottrekstrarsök. Samt þáði hann full laun í tæpt ár meðan hann sat á lyginni. Og þagði þunnu hljóði meðan milljónum var sökkt í rannsókn málsins.

Hér er á ferðinni sannur siðleysingi. Stolt og heiður FLOKKSINS. Enda sést það greinilega á öllum kveðjum flokks- og safnaðarfélaga hans í Fíladelfíu. Svona eiga trúaðir menn að haga sér. Ljúga og svíkja samborgara sína. Þetta er viðbjóðslegt samfélag!

Von Íslands er umburðarlyndi

Samskipti fólks eru æðisleg. Þegar ég djammaði sem mest niður í miðbæ reyndu iðulega við mig ráðsettir heimilisfeður sem voru ekki enn komnir út úr skápnum. Viðbrögð mín voru vanalega sú að afþakka kurteisislega viðreynslur þeirra og svo hvetja þá að gera hreint fyrir sínum dyrum og gangast við kynhneigð sinni. Meira gat ég ekki gert.

Hefði ég verið durgur eins og megnið af íslenskum karlpeningi er, hefði ég skallað gaurana fyrir að sýna mér áhuga og svo sparkað í þá liggjandi. Er sem betur fer ekki þannig gerður. Var reyndar upp með mér yfir áhuga þeirra. Lyfti sjálfstraustinu aðeins upp. Fannst verra að þeir væru ekki alveg komnir út úr skápnum og búnir að finna sig.

Auðvitað hefði ég getað „prófað“ einu sinni bara svona upp á grínið. Hef bara ekki áhuga á því. Ég hallast of mikið að konum. Sem er kannski synd því að möguleikar mínir liggja hjá samkynhneigðum körlum. Konurnar líta ekki við mér. Eldri hommi í Krónunni lét mig varla í friði um daginn. Ég roðnaði og varð hálf vandræðalegur og feiminn.

Sem er frábært. Í öðrum löndum fengi þessi eldri samkynhneigði karlmaður ekki að njóta sín og daðra við mig. Ég er svo þakklátur fyrir að hann getur óáreittur reynt við mig í stórmarkaði án afleiðinga. Þannig á heilbrigt samfélag að vera. Kannski er umburðarlyndið eina auðlegðin sem eftir er í þessu landi.