Framsóknarlaust Ísland árið 2017

Tilhneigingu fólks til að halla sér að íhaldssömu afturhaldi í stjórnmálum verður að mæta af fullri hörku. Alls ekki gefast upp gagnvart þessum illu öflum þröngsýni og sérhagsmunagæslu. Ég gubbaði á skjáinn í gær þegar forsætisráðherraflónið birtist með yfirlýsingar um leiðréttinguna sem verður birt á morgunn.

Hrokinn og gleymskan í þessum pabbastrák fær mig til að kreppa hnefana og óska eftir að hann verði á vegi mínum. 80 milljarðar sem við fáum sjálf að greiða á fjórum árum með sköttunum okkar eru ekki 300 milljarðar frá erlendum hrægammasjóðum eins og fíflið lofaði fyrir kosningar.

Svo lætur hann bara eins og netið sé ekki til. Að fyrri lygi hans gufi upp um leið og hann leggur fram aðra og nýrri. Þessi leiðrétting verður hvorki fugl né fiskur. Fólk verður síst betur sett en áður. Þetta er sýndarmennska og sölubrella kokkuð í eldhúsi fjósafasistamafíunnar.

Gerum landið að einu kjördæmi svo við losnum við þessa óværu úr íslenskum stjórnmálum! Við höfum ekki lengur efni á fávitastjórnum eins og nú ríkir yfir landinu. Við megum ekki við öðru hruni. Landið mun ekki lifa það af.

Guð hjálpi okkur!

Verkföll lækna og tónlistarkennara eru í gangi og yfirvöldum er nokkuð sama.  Á mánudaginn mun starfsfólk Kópavogs leggja niður störf.  Eflaust verður bæjaryfirvöldum nákvæmlega sama.  Öllum er sama.

Verkföll opinberra starfsmanna sýna bara fram á nauðsyn þess að einka(vina)væða þarf allt draslið.  Eða því trúa bjánarnir sem nú sigla þjóðarskútunni þráðbeint inn í næsta hrun í græðgisvæðingu sinni.

Hjá þeim er allt svart og hvítt.  Hækkun matvælaskatts þýðir kjarabót fyrir hinn almenna neytanda í þeirra huga.  Eitthvað sem stenst engan veginn. Hvorki í raunveruleikanum né í fræðum hagfræðinga.  Sama þó á móti komi niðurfelling vörugjalda á raftækjum.

Hrun II

Nú sit ég frábært námskeið í sagnfræði niður í Háskóla Íslands sem Guðni Th. Jóhannesson kennir. Það fjallar um hrunið. Reyndar stutt liðið frá því en þeim mun „skemmtilegra“ að fara yfir græðgi og fífldirfsku áranna fyrir og sjálft hrunið. Við vorum svo blind.

Nú stefnir í næsta hrun. Að minnsta kosti miðað við fjölda byggingarkrana í borginni. Bílalánin eru komin aftur á kreik. Greiningardeildir bankanna byrjaðar aftur að þenja raddböndin í fréttatímum ljósvakamiðlanna. Gervihagkerfi bankanna farið á fullt. Greinilega að opnast lánalínur út í hinum stóra heimi þrátt fyrir gjaldeyrishöft. Eða erum við bara aftur farin að lána sjálfum okkur með peningum sem eru ekki til?

Reisa á 18.000 fermetra einkarekna læknamiðstöð í Lindunum í Kópavogi á niðurgröfnum grunni 12.000 fermetra verslunarmiðstöðvar fyrir hrun.  Fyrsti kraninn er risinn.  Sá það með eigin augum í gær þegar ég fór í Elko og Krónuna. Landspítalinn má fara að undirbúa lokun.  Amerískt heilbrigðiskerfi hinna ríku með tryggingakerfi einhvers flokksdindils úr Sjálfgræðgisflokknum er handan hornsins.

Og til að slá ryki í augu okkar meðan þessir tveir flokkar ræna því sem eftir stendur af íslensku velferðarkerfi, þá gasprar fyrrverandi lögga og bindindismaður um sölu á áfengi í matvörubúðum.  Frumvarp sem verður aldrei samþykkt frekar en fyrri daginn að það var flutt.  Athyglinni skal beint annað meðan bófaflokkarnir tveir fremja sína glæpi gegn þjóð sinni.