Grátkór útgerðarelítunnar

Þéttvaxin veski sjá sér ekki fært að leggja aðeins meira tii samneyslunnar í formi hærri veiðigjalda. Skipa frekar húskörlum sínum og konum á Alþingi að stunda málþóf strax við fyrstu umræðu. Eitthvað sem hefur ekki áður gerst.

Upp sprettur forstjóri Brims sem segir að fiskurinn í sjónum eigi sig sjálfur, en hann og fégráðugir félagar hans eigi veiðiréttinn. Þjóðin eigi ekki neitt og eigi að þakka þeim fyrir að sækja fisk úr sjó. Trumpisminn ferðast víða.

Forstjóri Brims sækir ekki neitt frá skrifstofunni sinni. Það gera þrælar hans munstraðir á skipum hans.

Fyrir frú Vigdísi

Brunaði upp í RÚV í dag í örviðtal við Ragnhildi Steinunni um frú Vigdísi. Sendi víst einhverja örsögu til Ragnhildar sem varð til þess að hún hringdi í mig og bað mig um að mæta fyrir framan linsu og hljóðnema fyrir þátt um Vigdísi sem verður sýndur í vetur.

Tvær tökur. Sú fyrri bara upphitun. Sú seinni tókst víst vel. Skrítið að standa í kolsvörtu myndveri með tvær linsur, hljóðnema og bjart ljós á sér meikuðum í drasl

En hvað gerir maður ekki fyrir frú Vigdísi…og Ragnhildi Steinunni. Tvær frábærar konur.

Ritskoðun fæðir af sér alræðishyggju

Skil vel að góða fólkið vilji banna vitleysingum að tjá sig með rassgötunum á sér. En slík bönn verða bara til þess að fólk fer að kjósa þessa vitleysinga. Og þá fyrst er fjandinn laus!

Skárra að mæta þeim auglitis til auglitis og kveða þá þannig í kútinn. Alls ekki mála þá sem einhverja vitleysinga eins og Demókratar gerðu við Trump. Varð bara til þess að hinir vitleysingarnir kusu hann aftur sem forseta.

Sjáið bara hvað er að gerast í Þýskalandi og Englandi. Hægri öfgaflokkar ná hljómgrunni rétt eins og þriðja ríki Hitlers hafi aldrei verið til. Djöflamergurinn Nigel Farage gæti orðið næsti forsætisráðherra Englands.

Við lifum á víðsjárverðum tímum. Fjórða heimsstríðið er ekki svo fjarlægur möguleiki.