Vopnavæðingin

Nú heyrist hvíslað að alls 370 vélbyssur hafi verið fluttar inn til landsins. Vopnabúr fyrir hina ráðandi stétt þegar næsta búsáhaldabylting lætur á sér kræla. Kylfur og gasbrúsar heyra sögunni til. Nú skal hörðu mætt með hörðu. Geltandi byssukjaftar gagnvart þeim sem dirfast að mótmæla sitjandi ríkisstjórn og hennar klúðrum.

Eina von lýðsins á Austurvelli verður að lögreglan sem mun halda á þýsku vélbyssunum horfi í gegnum fingur sér og leggi niður vopn. Annars verður blóðbað í boði hrunflokkanna sem nú sitja að völdum. Viljum við það?

Sumir vilja það að minnsta kosti innan lögreglunnar. Til að mynda Bjartmarz sem skilur ekki þetta röfl yfir nokkrum vélbyssum sem séu veikari vopn en rifflar. En hann var nú reyndar á því að ganga hefði átt mun harðar gegn mótmælendum búsáhaldabyltingarinnar. Skyldi ekki þetta dekur.

Staðreyndin er sú að reynt var að vopnavæða lögregluna í leyni en blöðin komust að því. Nú gera allir tilraun til að krafsa yfir skítinn og benda á aðra. Enginn kannast við neitt. Blautasti draumur Björns Bjarnasonar fyrrverandi ráðherra er að rætast. Að Ísland hervæðist.

Biskupinn og Innanríkisráðherrann

Svartstakkurinn Biskupinn og Innanríkisráðherrann voru á kirkjuþingi í gær. Sú fyrrnefnda sá lítið að vopnavæðingu lögreglunnar. Samfélagið krefðist þess. Sú síðarnefnda vældi yfir umræðunni sem væri ekki börnum bjóðandi. Fór ekkert inn á hve djöfullega hún væri búin að gera upp á bak sér sem ráðherra og að aðstoðarkona hennar væri að reyna að þagga niður í blaðamönnum með málsókn.

Þessar fraukur eru veruleikafirrtar rétt eins og restin af valdastéttinni. Skilja ekki vilja þjóðarinnar og finnst öll gagnrýni vera persónuleg árás á sig. Fatta ekki að Íslendingar eru ekkert sérstaklega trúaðir. Og þeir sem það eru tilheyra sértrúarsöfnuðum. Flestum er nákvæmlega sama hvað þessar skessur hafa fram að færa.

Þær standa fyrir einhvern veruleika í órafjarlægð frá venjulegu fólki.

„Afi feiti“

Einhver „afi feiti“ leikur lausum hala í Kórahverfi í Kópavogi og tælir til sín unga drengi með nammi og teiknimyndum. Guð má vita hvað þetta gerpi hefur gert á hlut drengjanna.

Nú halda líklega flestir að „afi“ sé eldri maður, jafnvel kominn á eftirlaun. Ef til vill, en getur ekki verið að hann sé í kringum fertugt með grátt hár? Allir eru gamlir í augum ungra barna. Væri ekki ráð að kasta víðara neti og gera ráð fyrir að óþverrinn sé á milli fertugs og sjötugs?