Framtíðin

Félag lýðheilsufræðinga leggst gegn frumvarpi um að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum. Nefna sem rök að unglingadrykkja hafi minnkað svo mikið síðustu ár. Taka ekki með inn í reikninginn að ungdómurinn reykir bara gras og marijuana í staðinn fyrir að drekka bjór. Þarf heilt félag fyrir einn lýðheilsufræðing?

Þvermóðskan ríður sjaldan við einteyming. Fólk er svo innilokað í eigin fordómum að það hálfa væri nóg. Hvað kemur því við þó mig langi til að grípa bjórdós með þegar ég versla inn til heimilisins? Einn fyrir svefninn eftir langan og strangan dag. Af hverju neyðist ég til þess að fara langa leið í ríkisrekna sérverslun?

Djöfull þoli ég ekki svona forræðishyggju. Hata landbúnaðarkerfið þar sem þykir lenska að svíkja neytendur með einokun Mjólkursamsölunnar. Og það með lögum! Bið fyrir komu Costco inn í landið. Bið fyrir því að eftir næsta hrun (sem mun koma von bráðar) munum við hafa vit á því að ganga inn í Evrópusambandið og hætta þessu hokri út á miðju Atlantshafi.

Allt annað en fjórflokkinn

Listi yfir skattsvikara hefur lengi boðist ríkisstjórninni til sölu. Skothelt dæmi þar sem ríkið græðir margfalt virði þess sem það leggur út fyrir listanum. En nei, lítil von til þess að Bjarni Ben. fjármálaráðherra fari að kaupa lista með nafni sínu, ættingja og vina. Mun aldrei gerast. Afsökunin verður of mikill kostnaður fyrir lítil aflabrögð.

Fjármálaráðherra mun gretta sig og tala hægt. Jafnvel tafsa á milli orða. Hneykslast á slíku lögbroti sem illa fengnar upplýsingar eru. Fullyrða að skattaskjól séu hugarburður vinstrimanna. Að til lítils sé að kaupa slíkan lista…um vini hans og ættingja.

Hér verður enginn listi keyptur. Síst af öllu fyrst að vinstri stjórnin keypti hann ekki á sínum tíma. Fjórflokkarnir eru samtvinnaðir í sínu sukki. Þykjast deila á þingi en koma sér svo saman um að deila góssinu og níðast á landsmönnum. Framvegis kýs ég allt annað en fjórflokkinn. Annars breytist ekkert.

Asnalegt að hafa það ekki rétt

Ljósmynd birtist í Fréttablaðinu við umfjöllun um nýja leiksýningu. Á henni stendur liðsforingi Þriðja ríkissins og beinir skammbyssu að konu. Fyrir það fyrsta stillir hann sér upp eins og nútíma glæpon úr bandarískri gengjamynd. Fáranlegt.

Svo heldur hann á eftirlíkingu af Beretta 92. Vinsælli ítalskri skammbyssu sem var ekki framleidd fyrr en þrjátíu árum eftir lok seinna stríðs. Hefur verið notuð í meira en tuttugu ár af bandaríska hernum og lögreglunni. Vann samkeppni við Sig Sauer því hún var ódýrari og einfaldari. John McClane í Die Hard er alltaf með Beretta og ótal skothylki.

Þýskir liðsforingjar gengu annað hvort með Luger, Walther P38 eða Walther PP sem síðar varð PPK eins og sú sem Bond, Derrick og The Equalizer notuðu. Leiðinlegt þegar þau sem sjá um búninga leiksýninga nenna ekki að redda sögulega réttum leikmunum.

Colt M1911 og Beretta 92 hlið við hlið ásamt skothylkjum. Fyrrverandi og núverandi skammbyssur bandarískra hermanna
Colt M1911 og Beretta 92 hlið við hlið ásamt skothylkjum. Fyrrverandi og núverandi skammbyssur bandarískra hermanna
Walther P38. Sú sem tók við af dýrri framleiðslu á Luger P08.
Walther P38. Sú sem tók við af dýrri framleiðslu á Luger P08.
Walther PPK.  Hitler skaut sig og Evu Braun með þannig byssu. Sígild, þýsk hönnun ætluð til að vera hulin. Enn feykivinsæl í veskjum, vösum og náttborðsskúffum. Notuð lengi af þýsku, dönsku og sænsku lögreglunni.
Walther PPK. Hitler skaut sig og Evu Braun með þannig byssu. Sígild, þýsk hönnun ætluð til að vera hulin. Enn feykivinsæl í veskjum, vösum og náttborðsskúffum. Notuð lengi af þýsku, dönsku og sænsku lögreglunni.
Ein frægasta og vinsælasta hönnun á skammbyssu.  Fyrst framleidd 1908.  Þúsundir rötuðu til Bandaríkjanna með hermönnum seinna stríðs sem minjagripir.  Vinsælar eftirlíkingar eru enn seldar í bílförmum.
Luger P08. Ein frægasta og vinsælasta hönnun á skammbyssu. Fyrst framleidd 1908. Þúsundir rötuðu til Bandaríkjanna með hermönnum seinna stríðs sem minjagripir. Vinsælar eftirlíkingar eru enn seldar í bílförmum.