Íslenskir viðskiptahættir

Ljósleiðarabyltingin virðist eitthvað fara höktandi af stað. Að minnsta kosti hjá einu símafélaginu. Fjöldi fólks virðist upplifa truflanir og sambandsleysi. Sérstaklega þegar kemur að sjónvarpsútsendingum. Og tæknimenn í verktöku skilja ekkert í neinu og benda á rafmagnstengingar sem mögulega sökudólga. Ríkishrokinn er ekki enn runninn af þessu einkavinavædda fyrirtæki.

Mikið er ég feginn að vera ekki svona sólginn í háhraða. Læt mér nægja 4G pung frá Nova með inneign. Áskriftarsamningar eru bara hlekkir svika og pretta. Er eitthvað svo íslenskt að svindla á viðskiptavininum í stað þess að afhenda bara lýtalausa vöru heim að dyrum umbúðarlaust.

Bandalag Obama gegn Íslamska ríkinu

ISIS eða Íslamska ríkið eru eins og martröð úr James Bond kvikmynd. Samtök grímuklæddra illmenna í svörtum kuflum með rússneskar AK-47 vélbyssur og hnífa. Hverskonar aumingjar skera keflaða blaðamenn á háls fyrir framan myndavélar? Og það enskur böðull.

Ég hef ekki haft geð í mér að horfa á aflífingarmyndböndin þar sem þessi „John bítill“, eins og hann er kallaður, sargar hausinn af fórnarlömbum sínum með hnífi. Bæði er ég klígjugjarn, en auk þess finnst mér fórnarlömbunum sýnd stök óvirðing með slíku áhorfi. Aftökur eiga ekki að vera eitthvert skemmtiefni á Youtube.

Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson settu okkur á lista hinna viljugu þjóða í den að okkur forspurðum. Hvernig væri að við settum okkur á lista Obama sjálfviljug í þetta skipti. Svona pöddur verður að drepa umsvifalaust og án þess að hika. Annars ná þessi kvikindi að fjölga sér um of eins og nasistarnir forðum. Sex ár tók að útrýma þeim andskotum. Varla viljum við slíkt hörmungartímabil aftur?

Gott og slæmt

Margt finnst mér nú skrítið og asnalegt sem kemur frá þingliði núverandi stjórnar. Til að mynda fjárlagafrumvarpið eins og það leggur sig fyrir utan að ætla afleggja vörugjöld. Líst mér þó best á frumvarp fyrrverandi löggunnar og bindindismannsins Vilhjálms Árnasonar frá Sauðárkróki um að leysa upp einkaleyfi ÁTVR og leyfa sölu áfengis í matvörubúðum með vissum skilyrðum. Löngu kominn tími til.