Aftur í nám…endurskoðað

Þvílík vika! Var hættur við sagnfræðina þegar mér berst póstur á miðvikudaginn um að námsbrautin hafi endurskoðað mat sitt og ég fái að halda öllum mínum 120 einingum. Sem leiðir til þess að ég er hættur við að hætta. Ég sem ætlaði að leggjast í sjálfsvorkunn og leti. Damn!

Nú get ég ekki annað en gert mitt besta til að ljúka þessum einingum sem upp á vantar til B.A. gráðu. Sanna fyrir sjálfum mér og öðrum að ég geti það. Gruna að mér hafi verið hleypt í gegn því enginn trúir að ég muni nokkurn tímann ljúka náminu.

Sjáum til.

Aftur í nám…frestað

Fékk endurmat lokinna námskeiða eins og kjaftshögg framan í mig í dag. Næstum helmingnum hent í ruslið.  Fæ metnar 70 einingar af 120.  Gáfu ekki nánari skýringu en ég held að námsbrautin fari frekar eftir einkunnum heldur hve langt er liðið frá lúkningu námskeiðs.

Var ekki með neitt glæsilegar einkunnir í byrjun eilífðarnámsins en fór svo batnandi. Ég mun biðja um rökstuðning þó svo að það breyti varla niðurstöðunni. Svona er þetta bara.  Sé ekki fyrir mér að smámjatla aftur með vinnu þær einingar sem ég hef glatað.  Yrði að vera fullt nám.

Allur vindur úr mér eftir þessar fréttir.  Hef endanlega misst áhugann á að klára þetta blessaða sagnfræðinám.  Ætla að minnsta kosti ekkert að gera þessa önn, en held mér skráðum til að tapa ekki frekari einingum.  Sé svo til með eftir áramót.

Dyr lokast og aðrar ljúkast upp.  Eflaust kominn tími til að hætta þessu sagnfræðifokki og fara gera eitthvað annað.  Hætta að berja hausnum við steininn. Eins gott að ég var ekki búinn að kaupa fullt af rándýrum bókum.

Fengið að láni

Finnst undarlegt að sautján þúsund kjaftar ætli á Justin Timberlake í Kórnum. Einu lögin sem ég kannast við hjá honum eru „Cry Me a River“, „Mirror“ og svo nýjasta lagið þar sem hann gaular ofan í gamla upptöku frá Michael Jackson heitnum.

Sennilega verða flestir gestirnir í Kórnum kvenkyns og það af öllum aldri. Jafnvel á mínum og ofar. Enda J.T. svo sætur og góður drengur. Sem er alveg satt. Kemur vel fyrir og virðist ekki vera fæðingarhálfviti eins og nafni hans Bieber.

Án mikilla raka má halda því fram að Justin sé arftaki Elvis að því leyti að hann skarar fram úr með því að herma eftir svörtum söngvurum og selja dæmið til hvítra hlustenda. Hann dansar og syngur eins og goðið sitt Michael Jackson. Elvis varð fyrst frægur fyrir að syngja svart rokk yfir í hvítt.

Og nei! Ég er ekki rasisti. Bara að benda á hvernig hvítir listamenn „fá lánað“ frá svörtum. Snurfusa það og setja í snyrtilegar umbúðir fyrir okkur föla fólkið.  Eminem?