Country

„Crazy Heart“ var á RÚV eftir tónleikana niður við Arnarhól. Einn af uppáhalds leikurunum mínum, Jeff Bridges, leikur þar og syngur hlutverk útbrunnins sveitasöngvara sem kynnist sér mun yngri konu (Maggie Gyllenhaal) og reynir að snúa við blaðinu. Stöðugt í skugga arftaka síns og lærisveins (Colin Farell) og aðeins of hændur að eðalvískí frá Kentucky. Jeff hlaut loksins Óskarinn fyrir hlutverkið eftir að hafa verið tilnefndur fjórum sinnum áður.

Nasistaklippingin

Rosalega er orðið erfitt að greina menn í sundur á aldrinum 10 – 50 ára. Þeir eru allir með sömu nasistahárgreiðsluna.  Rakaðar hliðar og sítt/millisítt hár smurt aftur eða til hliðanna.  Og í sömu hipsterajökkunum, þröngu buxunum og flatbotna strigaskónum.

Liggur við að ég þakki fyrir að vera hálf sköllóttur og spikfeitur.  Því ekki myndi ég nenna vera eins og allir hinir. Hef ekki elt tískustrauma síðan ég var með broddaklippingu og klæddist snjóþvegnum gallabuxum fimmtán ára gamall.

Menningarnótt

Mamma gamla dró mig stundarkorn niður í miðbæ með strætó.  Tókum Hljómskálagarðinn, út Lækjargötuna og til baka.  Nenntum þá ekki meiru.  Helvítið hann Jón Jónsson var við það að fara væla í garðpartý Bylgjunnar svo við forðuðum okkur hið snarasta.

Nenni ekki lengur að hanga þarna yfir tónleikum sem hægt er að sjá í sjónvarpinu og listræna flugeldasýningu sem varir í rúmar fimm mínútur.  Eiga svo eftir að koma mér heim með strætó.  Nei takk!  Viðburðir dagsins í hinum ýmsu götum eru áhugaverðari.  Var bara svo lengi að koma mér af stað í þetta skiptið.