Jersey Boys

jersey-boys-clint-eastwood

P.S. Myndin hér að ofan er af Clint Eastwood leikstjóra og gaurunum fjórum sem leika og syngja í myndinni.  Tekin af Ann Leibowitz, einum fremsta portrettljósmyndara Bandaríkjanna.

Jersey Boys að flytja „Sherry“.  Skuggalega líkt upprunalega flutningnum hjá Frankie Valli and the Four Seasons.

Nú er bara að skella sér á ræmuna næsta rigningardag.

Gleðigangan 2014

Veðrið var gott og ég dröslaðist með mömmu í strætó til að fylgjast með gleðigöngunni.  Leið eitt og tvö úr Hamraborg fylltust fljótt.  Tókum því fjarkann niður á Hlemm og skakklöppuðumst þaðan niður í miðbæ.  Nóg pláss í vagninum og ekkert vesen.

Skömmu síðar tóku að birtast fréttir á vefnum að stútfullir vagnar ækju framhjá fullum biðskýlum af fólki.  Kerfið sprakk í kringum tvö.  Og svo aftur seinnipartinn þegar lýðurinn hélt heim á leið.

Sama á eftir að gerast á menningarnótt eftir tvær vikur.  Svona er þetta bara. Erfitt að reikna út fjöldann fyrirfram á þeim sem munu nota almenningssamgöngur.  Eða svo segja þeir hjá Strætó.  Nægir reyndar að fylgjast með veðurspánni og áætla út frá henni.

Annars var þetta fín bæjarferð.  Hittum nokkra ættingja meðan við sátum eins og rónar á bekk á Austurvelli og hvíldum lúin bein.  Nutum sólarinnar þegar hún lét sjá sig.  Komum okkur loks heim þegar stemningin var að verða sveitt og kólna tók í lofti.

Svanurinn hans Páls Óskars stóð upp úr sem atriði göngunnar.  Hafa reyndar oft verið flottari vagnar en í ár en þátttakan var góð og flestir í góðum gír.  Fullu gaurarnir á Arnarhóli voru þó dálítið eins og álfar út úr hól meðan skemmtiatriðin voru á sviðinu.  Sást varla vín á öðru fólki.

Dauði að ofan

Það mátti skoða þessa aðra flughæfu Lancaster sprengjuvél úr seinna stríði niður á Reykjavíkurvelli í hádeginu.  Fyrst var ég voða æstur en svo fór ég að hugsa um Gaza og áhuginn dvínaði aðeins.  Reyndar nennti ég ekki að hlunkast niður á völl.

Að varpa sprengjum á óbreytta borgara er varla hetjuverk.  Þrátt fyrir að þú fórnir lífi þínu við það.  Ég skilaði inn ritgerð í sagnfræði um Hiroshima fyrir milljón árum. Lagðist í það efni sem ég gat fundið um hugmyndafræðina á bak við loftárásir.

Aðalkenningin kvað á um að loftárásir myndu veikja baráttuvilja andstæðingsins. Sú kenning var hrakin í seinna stríði af þýsku og japönsku þjóðunum. Loftárásir gera lítið annað en að drepa óbreytta og eyðileggja vatnsveitur, rafmagnsveitur, skóla og sjúkrahús.  Byggingarnar má endurbyggja en lífin eru glötuð. Baráttuandi fólksins deyr hins vegar seint. Rétt eins og hjá fólkinu á Gaza einmitt núna.

Í seinna stríði flugu tíu til ellefu manna áhafnir sprengjuflugvélum eins og Avro Lancaster og B-17 Flying Fortress yfir Þýskaland.  Helmingslíkur voru á að þú snerir aftur úr slíkri feigðarför vegna loftvarnabyssa og orrustuvéla þýska hersins. Hetjudáðin var að snúa aftur heim, ekki að fleygja sprengjunum.

Lancastervélin sem millilenti hér er merkileg heimild.  Gott framtak að varðveita sögulegar menjar eins og hana og halda henni gangandi.  Skilst að þessi vél hafi ekki verið notuð sem sprengjuvél, heldur til leitar og björgunar.

Sprengjuvélar með fjölmennri áhöfn heyra sögunni til.  Nú eru notaðar eldflaugar og ómannaðir drónar til að dreifa dauða að ofan.  Nútíma stríð er tölvuleikur á skjá.  Einstaka sinnum fá orrustuþotur að sanna sig líkt og núna gegn ISIS óþverrunum í Írak.