Gleðin við völd

Árlegir Hinsegin dagar eru gengnir í hönd.  Þeir ná hápunti eftir tvo daga í gleðigöngunni frá Vatnsmýrarvegi (BSÍ) til Lækjargötu fyrir neðan Arnarhól.

Ég nennti ekki í fyrra og missti því af typpasleikjóunum hans Gylfa Ægis, sem reyndar mætti ekki heldur en fullyrðir samt að ofgnótt af slíkum góðgætum hafi verið dreift til barna til að heilaþvo þau og gera samkynhneigð.

Sagan segir að einhverjum „vini“ Gylfa Ægis hafi verið nauðgað af karlmanni í den á fylleríi og það virðist lita sýn hans á samkynhneigða karlmenn.  Gylfi setur meira segja homma og barnaníðinga í sama flokk út frá þessari reynslu vinar hans.

Mikið væri nú gaman ef Gylfi og „vinur“ hans mættu í gleðigönguna og léttu af sér þessu oki sem fordómar gagnvart samkynhneigðum eru.  Fordómar eru þungar byrðar og til óþurftar í lífinu.  Lífið á að vera skemmtilegt.  Annað er sóun.

Fall ráðherra

Rosalega er sorglegt að fylgjast með Hönnu Birnu innanríkisráðherra grafa sér sífellt dýpri gröf með degi hverjum. Eitt sinn var ég á því að hún ætti að verða formaður Sjálfstæðisflokksins og myndi þannig brúa bil milli flokka í gegnum samráðspólitík sína sem hún hafði stundað í borginni.

En nei, um leið og hún varð ráðherra breyttist allt.  Tóm frekja og valdhroki dreypir af henni.  Þykist ekkert rangt hafa gert með því að leka út upplýsingum um hælisleitanda til fjölmiðla til þess eins að geirnegla brotthvarf hans frá landinu.

Eitthvað sem átti bara að vera smámál innan ráðuneytisins milli Hönnu Birnu og aðstoðarmannanna tveggja hefur blásið upp í fjölmiðlum fyrir dugnað blaðamanna DV.  Sömu blaðamanna sem ráðherrann heimtaði að yrðu reknir í símtali við ritstjórann.

Og nú reynir Hanna Birna að snúa sér út úr málinu með því að þykjast vera fórnarlamb pólítískra ofsókna.  Og eina manneskjan í ríkisstjórninni sem sýnir henni stuðning er peysufatakerlingin Sigrún Magnúsdóttir formaður þingflokks Framsóknar.  Restin af stjórninni heldur að sér höndum og bíður þess sem verða vill; að Hanna Birna segi af sér ráðherradómi.

Lærifaðir Hönnu Birnu hlýtur að hrista hausinn einmitt núna.  En hann segir í sífellu: „Þegar þú ert kominn í holu, hættu þá að moka.“  Samt mokar Hanna áfram eins og enginn sé morgundagurinn.

Hefur virkilega ekkert breyst?

Merkilegt mont lögreglunnar í Vestmannaeyjum yfir gæslu sinni í dalnum. Lögðu alla áherslu á fíkniefnaeftirlit og að elta uppi neytendur með smáskammta.  Væri gaman ef áherslan hefði verið að að tryggja öryggi Þjóðhátíðargesta fyrir ofbeldi og nauðgunum.  Svo gamaldags að beina öllum kröftum lögreglunnar í eltingarleik við neytendur ólöglegra efna meðan dalurinn er fullur af krókódílamönnum með höfuðin full af ljótum hugsunum.

Enn sem er hefur ekkert heyrst af nauðgunum í Herjólfsdal.  En sagan segir okkur að slíkar tilkynningar berast ekki fyrr en í vikunni frá hátíðinni.  Og þá bara frá hugrökkustu stúlkunum en dómatölfræðin er ekki beint hvetjandi. Það er nefnilega gott að vera nauðgari á Íslandi. Sönnunarbyrðin er svo þung að fórnarlömbin þurfa helst að mæta með vitni, myndband og stimplað vottorð um glæp með sér á lögreglustöðina. Jafnvel þá er þeim sjálfum kennt um glæpinn vegna klæðnaðar eða ölvunar.

Komið er við fórnarlömb nauðgana eins og dádýr sem verða viðskila við hjörðina og lenda í klóm rándýra. Geta bara sjálfum sér um kennt.  Og nánast er viðurkenndur réttur rándýranna til að ráðast á viðskila einstaklinga og nauðga. Eins og nauðgun sé eitthvers konar náttúrulögmál sem verður ekki breytt.

Fyrr á öldum pössuðu vinnukonur sig á að ganga efri leiðina milli bæja til að minnka líkurnar á að vera nauðgað því karlmenn á förnum vegi voru oftar en ekki komnir með buxurnar niður að ökklum þegar þeir mættu þeim á aðalveginum. Hefur virkilega ekkert breyst síðan þá?