Regnskógurinn Reykjavík

Kannski er öll þessi rigning boðberi betri tíma fyrir höfuðborgarsvæðið? Með þessu áframhaldi mun borgin breytast í regnskóg sem mun dreifa súrefni jafnt til Evrópu og Ameríku.  Aspir hafa hækkað um hálfan metra síðan í vor og virðast ekkert ætla að slá af.  Bráðum munu snákar og stærðar köngulær verða sjálfsögð viðbót við dýraflóru landsins.

66° Norður munu framleiða léttan regnfatnað fyrir túristana sem hanga niður í miðbæ og súpa suðrænan bjór frá brugghúsum landsins.  Corona og Sol munu fá verðuga samkeppni.  Kúbverskir rommdrykkir ryðja vodkablöndum úr vegi.  Frumstæðir þjóðflokkar frá Amazon flykkjast hingað í betri aðstæður.

Ekki veit ég af hverju ég er að hanga hérna.  Spurning um að stíga upp í rútu í komandi sumarleyfi  og bruna norður eða austur á land með tjald. Liggja þar og brenna á mér skallann.  Nema náttúrulega að sólin láti sjá sig fyrstu tvær vikurnar í ágúst.  Sætti mig við þurrk og ský.

Sagan endurtekur sig

Forsætisráðherrafíflið að tjá sig á miðstjórnarfundi flokks síns.  Ekki björt framtíð fyrir okkur.  Fleiri ráðsettar stofnanir verða fluttar út á land til deyjandi byggða í þeirri veiku von að þar mun allt blómstra í kjölfarið.  Meira helvítis fíflið þessi silfurskeiðungur.  Dauðlangar til að berja eitthvert vit í hans heimska, spillta og feita haus.

Svo vælir hann eins og stunginn grís undan gagnrýni fólks yfir því að sigur flokksins hans í Reykjavík sé fenginn með því að virkja lægstu hvatir veikra einstaklinga sem sitja daginn út niður í kjallara og bölva útlendingum og moskum og hringja þess á milli í símatíma Útvarps Sögu.

Framsókn er krabbamein á þjóðinni!  Samt kaus fjórðungur hennar þessa hörmung yfir sig upp á loforð um skuldaleiðréttingu sem svo reynist hvorki fugl né fiskur.  Að Framsókn hafi eins og þjóðin kosið gegn Icesavesamningunum veitir þeim ekki opið veiðleyfi á þjóðina að kosningum loknum.

Hrunflokkarnir eru óðum að vinna að næsta hruni sem við skóflupakkið fáum svo að greiða upp í topp.  Og enginn gerir neitt til að koma í veg fyrir martröðina.  Við sitjum bara sæl fyrir framan flatskjáina og bíðum syndaflóðsins. Þurfum að sýna þessu liði gula spjaldið.  Annars hikar það ekki hót og mun sigla þjóðarskútunni aftur á bólakaf.

Forræðishyggjan

Þegnum þessa lands er treyst til þess að kjósa yfir sig Framsókn en ekki að versla sér vín úr matvörubúðum. Möguleg koma Costco til landsins hefur komið umræðunni aftur í gang.  Rökin fyrir rekstri Vínbúða ríkisins eru þau að þær eru svo flottar, hlaðnar úrvali og mannaðar vínsérfræðingum.  Bull og vitleysa!

Varaformaður Neytendasamtakanna, Þóra Guðmundsdóttir, ver þessi skipti í Sprengisandi, þætti Sigurjóns Egilssonar á Bylgjunni.  Ber fyrir sig lýðheilsusjónarmið sem kunna að koma sumum fyrir sjónir sem forræðishyggja ríkisins.  Kannski vegna þess að þetta ER forræðishyggja!

Sykur flæðir um allt í matvörubúðum landsins.  Og enginn gerir athugasemd við það.  En um leið og að minnst er á bjór eða léttvín, þá verður allt vitlaust. Í flestum siðmenntuðum löndum má selja vín í öllum búðum. En þar eru líka „liquor store“ sem sérhæfa sig í sölu á fínni vínum og hafa þekkingu á þeim. Slíkar verslanir munu einnig þrífast hér þegar við leggjum niður ÁTVR. Færasta starfsfólkið þaðan mun fá vinnu áfram í þessum sérhæfðu verslunum.