Haltrandi eftir nauðsynjum

Eftir tæpt ár af hreyfingarleysi og pöntuðum vörum í gegnum netið nýt ég þess að haltra á hækjum í gegnum matvörubúðir tvisvar, þrisvar í viku. Snerta og velja ofan í körfuna.

Komast í kynni við annað fólk. Heyra raddir og rifrildi. Vera rassað til hliðar af freka kallinum og syni hans. Kerlingarskassinu sem beið álengdar og lét svo til skarar skríða þegar ég reyndi að nálgast vörur í kælinum.

Merkilegt hve mörgum er illa við fólk sem notar hækjur til að komast á milli staða.

Leigubílar

Með hálfónýtan vinstri fót hef ég fengið tímabundið niðurgreidda akstursþjónustu hjá Reykjavíkurborg. Lengst af bílar frá Pant. Litlir sendibílar með fjórum litlum sætum og rými fyrir tvo eða þrjá hjólastóla. Frekar óþægileg ferðalög ykkur að segja.

Eftir að ég lagði hnéhjólinu hef ég hinsvegar aðallega ferðast með leigubílum frá Hreyfli. Kvarta ekki yfir því að vera keyrður á milli staða á Tesla, BYD, Mitsubishi, Toyota og Skoda rafbílum. Á eftir að sakna þessa fararmáta þegar ég neyðist til að haltra aftur í úldna strætisvagna.

Leigubílstjórar eru jafn misjafnir og þeir eru margir. Þó allir fagmenn fram í fingurgóma. Finn fljótlega hvort þeir eru til í spjall eða kjósa að vera hljóðir alla leiðina.

Leitt að Sigurður Ingi hafi reynt að eyðileggja stéttina með lagafrumvarpi sem veitti flóðbylgju af flóttamönnum leyfi til að taka prófið blindandi og hertaka Leifsstöð og miðbæinn um helgar. Skilst að það sé annað frumvarp á leiðinni sem á að bæta stöðuna umtalsvert og skikka bílstjóra að vera á stöðvum með mæli og án okurs.