Heimskviður

Enn eitt stríðið milli Ísrael og Palestínu. Flestir halda með Ísraelum þó þau séu landtökufólk og hafi kallað þessar hörmungar yfir sig. Rétt eins og landnemar Ameríku sem urðu að þola árásir innfæddra á bæi sína. Þýðir ekkert að nota rökin að við vorum einu sinni þarna. Samkvæmt því ættum við Ameríku. Breytir því ekki að ekkert fyrirgefur fjöldamorð á óbreyttum borgurum.

Bjarni Ben. stal þrumunni í enn eitt skiptið og sagði af sér þegar flest okkar bjuggumst við þvermóðsku og skítkasti út í álit umboðsmanns Alþingis. Teflon-Bjarni myndi lifa af kjarnorkustyrjöld rétt eins og hinir kakkalakkarnir. Annars er eitthvert þvílíkt plott í gangi innan Valhallar. Kemur í ljós á laugardaginn á ríkisráðsfundi á Bessastöðum þar sem Guðni forseti verður búinn að hella upp á ylvolgt kaffi og baka kleinur.

Sölvi Tryggvason kynnti jólagjöfina í ár fyrir alla misskilda karlmenn sem hafa einhverju sinni verið sakaðir um eitthvað misjafnt gagnvart konum. Þegar Frosti Logason, Arnþrúður Karlsdóttir, Pétur Gunnlaugsson, Hannes Hólmsteinn Gissurarson ásamt ýmsum öðrum topp karakterum mæta í útgáfuhófið, þá er öruggt að þú átt von á góðu.

Bíð einnig spenntur eftir bókum Ingó veðurguðs og Loga Bergmanns. Pottþéttar metsöluskruddur eins og bók Sölva. Gott ef Frosti Logason skelli ekki í eina og jafnvel Bergþór Ólafsson líka. Stefnir í að jólabókaflóðið verður gott í ár fyrir karla sem hata konur og telja sig eiga heimtingu á kynlífi með þeim.

Óhagnaðardrifið samfélagsverkefni

Tveir gosar úr flokknum svo stoltir af dagsverki sínu að segja öllu ræstingarfólki og starfsfólki á þvottahúsum Grundar upp störfum svo þeir geti grætt enn meira með útvistun til einkarekinna fyrirtækja (sem þeir eiga sennilega sjálfir) sem greiða enn lægri laun til starfsfólks síns og tryggja enn síður réttindi þeirra.

Setja ætti í lög að rekstur hjúkrunar- og elliheimila megi ekki vera gróðrastía fyrir flokksmenn og að þar eigi hvorki stjórn né forstjóri heima í leit að skjótfengnum gróða. Umönnum eldri borgara á að vera óhagnaðardrifið samfélagsverkefni okkar allra. Annað er bara fáranlegt!

Síðasti vagninn

Geðbilaður bílstjóri ekur tuttugu tonna vagninum eins og sportbíl um götur borgarinnar. Ástfangnir unglingspiltar sitja fyrir framan mig sitthvoru meginn við ganginn og horfast í augu. Snertast öðru hverju. Fyrir aftan mig röflar sótdrukkinn pólskur maður. Grætur og talar við sjálfan sig sorgmæddur.

Asnaðist upp í tvistinn í stað fjarkans úr Hamraborginni. Breytti ekki miklu. Bara hefðbundin ferð með strætó þessa dagana. Maður veit aldrei hverju maður á von.

Borgarlína verður aldrei. Það nennir enginn þessu rugli nema bjánar eins og ég, unglingar án bílprófs og fátækt fólk af erlendu bergi brotið.

Helsta happdrættið er hversu veikur á geði bílstjórinn reynist vera. Efast um að þeir séu allir með meirapróf, nema þá kannski keypt yfir borðið með seðlabúnti í brúnu umslagi.