Hvíl í friði Borgarlína

Bjarni Ben. jarðsöng Borgarlínuna í dag. Segir hana allt of dýra og að forsendur hafi breyst. Enda var aldrei ætlunin að koma henni á koppinn. Bara koma tveimur gosum úr flokknum í forstöðusæti til að tefja dæmið þar til það gæfi upp öndina sökum kostnaðar.

Leitt að segja það en til hvers var haldið af stað ef aldrei átti að verða neitt úr þessu? Jú, leikritið þurfti að spilast út yfir nokkur ár svo fólk tryði að eitthvað væri að gerast í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins meðan við skröltum um í úr sér gengnum vögnum og ferðumst á hraða snigilsins milli borgarhluta á leið til vinnu.

Nú geta Sjallar sagt að þessi sósíalismi hafi ekki gengið upp. Einkavinavæðum samgönguæðarnar og seljum Engeyingum og vinum fyrir slikk. Á því fer best.

Lögregluríkið

Er það bara ég, eða gerir lögreglan í því að bögga hinn almenna borgara fyrir litlar eða engar sakir? Núna síðast hjónakornin í Hveragerði og piltinn á Ljósanótt. Mig fyrr á árinu í Mjóddinni fyrir að vera sköllóttur og miðaldra. Strákinn með dreddana tvisvar sama daginn. Vinkonu þeirra í hvalbátunum sem löggurumur réðist á er hún var að fara út af bannsvæðinu. Auðvitað sló hún til hans fyrir frekjuna.

Er komið eitthvert nýtt skipurit sem segir að bögga verði borgarann sem mest svo við höldum okkur á mottunni og séum ekki að rífa kjaft? Annars fáum við að finna fyrir því.

Svefn

Dugnaður minn felst helst í því að gera nákvæmlega ekki það sem læknar ráðleggja mér. Nema að nota lyfin sem þeir skrifa upp á. Geri slíkt samviskusamlega. En að borða betur eða nota svefnvél gegn kæfisvefni…neeeiiii. Óþarfi. Kemur mér ekki við.

Og það er sennilega að læðast upp að mér. Skrokkurinn er hættur að hlýða mér. Geng um haltur, skakkur og skældur. Komst ekki upp úr rúminu í dag fyrr en seint og síðar, og þá með erfiðismunum. Lagði mig aftur og náði loks smá hvíld. Leið strax betur. Eftir samtal við sjálfan mig er niðurstaðan að ég fæ sennilega ekki nægan og nógu góðan svefn. Eða það er kenning mín.

Ætla að skella á mig nefgrímunni um leið og ég leggst á koddann í kvöld. Lítil fórn fyrir djúpsvefn og góða hvíld fyrir skrokkinn sem verður að fá að endurnýja sig á nóttunni. Nenni svona fötlun ekki. Er bara fimmtugur. Sjáum til hvort að mér fari ekki að líða betur og skrokkurinn að virka á ný.