Leið 14

Hristist heim með leið 14 af Grensásvegi. Tvær fjórtán tipluðu inn stuttu seinna án þess að greiða fargjald. Bílstjórinn æpir á eftir þeim að þær séu ekki ellefu ára og þurfi að greiða. Þær þykjast ekkert skilja og tala bara arabísku.

Vagninn ekki á leiðinni neitt og komin upp pattstaða. Bilstjórinn á leiðinni til þeirra til að fleygja þeim út. Þær haggast ekki heldur veifa gaur í gegnum gluggann og biðja hann um að greiða fyrir sig. Sem hann og gerir. Meiri vitleysan!

Svona svipaðar og íslensku gelgjurnar sem ruddust fram fyrir alla í sjálfsafgreiðsluröðinni í Krónunni um daginn. Laumuðu sér tvær framhjá og stilltu sér fyrir aftan konu sem var að klára. Glottu á meðan framan í okkur eins og til að segja „hvað þykist þið ætla að gera sem eruð svo vitlaus að bíða í röð!“ Fremstur ég hristi bara hausinn framan í þær en langaði helst til að elta þær út úr búðinni og æpa á þær. Krakkakjánar að kanna mörkin.

Okkar ylhýra

Gerir það mig að þjóðernissinna að neita að tala ensku í verslunum og á veitingahúsum hérlendis? Dettur ekki í hug að grípa til enskunnar þegar ég er að panta mér mat. Hvort heldur sem er á skyndibitastað eða veitingahúsi.

Við tölum íslensku og eigum ekki gefa neinn afslátt þó við séum fáeinar hræður. Ekki gera aðrar þjóðir slíkt.

Símafrí

Í hverfinu mínu hefur Laugarlækjarskóli sett á símabann nemenda á skólatíma. Tími til kominn. Athyglin á að vera á náminu. Í rauninni ætti þetta bann ná upp eftir öllum menntastigum framhaldsskóla og háskóla.

Hef aldrei skilið þegar ég mæti fólki úti á götu með andlitin grafin í símana sína. Hvað er svona merkilegt að það má ekki bíða betri tíma heima?

Annars er ég slæmt dæmi þegar kemur að símanotkun. Til er mynd af mér í heimilissímanum á öðru ári sem ég man ekkert eftir. Á víst að hafa hringt óvart til útlanda í einhverju fikti. Síðan man ég bara eftir síma heima þrettán ára. Þar á milli var enginn heimasími. Sennilega eitthver taktík hjá gamla að loka á samskipti mömmu við fjölskyldu sína.

En hvað um það. Símar hafa ekki heillað mig síðan ég var nýfarinn að ganga. Tek snjallsímann aldrei með mér milli rýma í vinnunni og alls ekki í hádegismat. Gleymi oft að kveikja á hringingunni eftir strætóferðir hvar ég svara aldrei í símann.

Skil ekki hvað er svona spennandi að ég neyðist til að ganga með hangandi haus og rekast á annað fólk á leið til og úr vinnu. Leyfi kvikindinu bara á sitja í hliðarvasa á bakpokanum mínum. Gríp hann til að greiða í strætó.

Lít svo á að ef þú getur ekki verið einn með eigin hugsunum, þá er eitthvað mikið að.