Menningardagur

Þar sem ég er orðinn bæði gamall og lúinn, þá nenni ég ekkert að hanga á Arnarhóli eða í Hljómskálagarðinum eftir að skyggja tekur á Menningarnótt. Horfi bara á gargið í kassanum heima.

Hinsvegar brunaði ég niður í bæ á hopphjóli að deginum til og rölti upp og niður miðbæinn og varð vitni að frábærum listviðburðum á öðru hverju götuhorni. Og aftur fótalúinn heim á hopphjóli.

Tilbreyting frá því að vera fluttur úr bænum eins og hver annar búpeningur úr bænum eftir flugeldasýninguna sem er varla svipur hjá sjón miðað við fyrri ár.

En hvað um það. Menningarnótt minnir okkur á að njóta menningar og lista allt árið í kring. Gerum það!

Sakbitin sæla

Þegar ég fylgdist með Tónaflóði í stofunni heima þá rifjaðist upp sakbitin sæla mín fyrir stúlkna- og strákasveitum. Endurkoma Nylon kveikti í mér. Fór með það eins og mannsmorð á sínum tíma rétt eins og þegar ég hlustaði á Elvis meðan jafnaldrar mínir voru að missa sig yfir Wham og Duran Duran.