Reykjavíkurflugvöllur…

er kominn á tíma og verður að víkja. Þvílík frekjan í Isavia að heimta að skógurinn í Öskjuhlíð verði að fara svo aðflugsstefnan haldi sér. Og vælir svo líka yfir uppbyggingu í Skerjafirði og Borgarlínubrúnni yfir Fossvog sem þrengja að gamla herflugvelli breta úr seinna stríði.

Er ekki bara kominn tími á þennan völl!

Þriðja ríki Íslands

Ég veit ekki alveg, en mér finnst gusta vott af fasisma frá vonandi fráfarandi ríkisstjórn í málefnum flóttafólks. Meira að segja forsætisráðherra er stokkin á vagninn. Reisa skal flóttamannabúðir fyrir fólk sem hefur verið hent út á Guð og gaddinn vegna nýsamþykktra laga nasistanna niður á þingi.

Hættið þessum skrípaleik rasistarnir ykkar! Hvernig er það að vera góða fólkið að vilja sýna smá mannúð og skilning. Að vilja greiða götu fólks í leit að betra lífi sem er tilbúið að vinna fyrir sér en fær það ekki. Sérstaklega ekki ef það er dökkt á hörund.

Leppalúðapólítík…

er þegar karlmenn í annars frjálslyndu og vestrænu samfélagi í stöðugri framþróun vilja staldra við og jafnvel snúa til baka til „betri tíma“ þegar karlmenn réðu öllu, konur voru þægar og prúðar á bak við eldavélina og samkynhneigðir kyrfilega lokaðir inn í skáp.

Þrír lærisveinar þessara leppalúða voru niður í bæ í gær með gelbyssur skjótandi á gleðigönguna veifandi tyrkneska fánanum. Mál þeirra fara fyrir barnavernaryfirvöld sökum ungs aldurs. Móðir eins þeirra segir að drengurinn hennar hafi ekki fengið slíkt uppeldi frá sér heldur föður sínum sem hún deilir forræði með. Að hann sé áhrifagjarn og í raun ekki svona þenkjandi.

Gott og vel. Vonandi hristir hann þetta af sér og leitar í skárri félagsskap í framtíðinni. Svo sorglegt þegar einhverjir súrir gaurar vilja ekki leyfa öðrum að njóta sama frelsis og þeir hafa notið áhyggjulausir alla ævi. Hoppa bara hugsunarlaust á vagninn með Ron DeSantis, Donald Trump, Jordan Peterson, Andrew Tate, Begga Ólafs, Frosta Logasyni og allri hans hirð á Brotkastinu og telja ræpuna þeirra sannleikann sjálfan.