Prettyboitjokko og Brjánsi sýra í Sódóma Reykjavík


Ég skil ekki stjórnarsambandið. Skil ekki af hverju Katrín nennir að hanga í þessu samstarfi við bófaflokkana. Bara fyrir einhverja nokkra ráðherrastóla.
Kannski er hún að sækjast eftir einhverjum bitlingi utan frá eftir þetta óheilaga hjónaband vinstri og hægri. Sem andlit landsins hefur hún verið út um allar trissur að hitta erlenda leiðtoga. Fær kannski eitthvert embætti.
Hélt meira að segja einhvern voðalega mikilvægan fund í Hörpu með fullt af vitleysingum með vélbyssur fyrir framan. Miðbærinn tæmdist af fólki. Enginn nennti að láta beina að sér byssuhlaupi. Jafnvel þó það var innlent og „vinveitt“.
Sigurður Ingi er svo eins og barn drykkfelldra foreldra, sem eru við það að skilja, sem reynir að halda friðinn. Svo sorglegt. Og Kata í tómri afneitun meðan karlakórinn Grátbræður vælir fyrir aftan Bjarna Ben. af sturlaðri frekju.
Sumarfríið hefur verið gott framan af. Sól og þurrt ef var skýjað. Rignt að nóttu til. Jafnvel hlýtt. Kannski tveir haustdagar.
Hef verið duglegri heldur en fyrir ári síðan þegar grámyglan lá yfir öllu og mig langaði varla út úr húsi.
Málið er að setja sér hóflega fyrir hvern dag. Ekki spenna bogann of hátt. Sumarleyfið er til að gíra sig niður. Ná vöðvabólgunni úr öxlunum. Gleyma saltnámunum.
Fylgjast með öllum bandarísku ferðamönnunum sem skilja ekki Klappið frekar en við hin og hneykslast á íslensku verðlagi. Samt koma þau hingað. Kannski bara til að kæla sig eða skoða þjóð í hlekkjum eigin hugarfars.
Við erum víst rannsóknarefni fyrir mannfræðinga heimsins. Eins skrítin og við erum.