Var bongó í dag? Já það var bongó! Fyrsti sumardagurinn í borg óttans. Biðraðir í ísbúðir, fullar sundlaugar og allir að grilla.
Author: Þrasvarður
Sunnudagsmorgunn
Í morgun þegar ég rak út nefið á leið út í búð í fæðisleit voru Hopphjól út um allt og jafnvel Hoppbíll beint fyrir utan sem biðu eftir mér þegar ég þurfti ekkert á þeim að halda og lá ekkert á að mæta til vinnu.
Þrammaði út í Krónuna í Borgartúni. Á gatnamótunum við Kringlumýrarbraut renndi stúlka á hlaupahjóli upp að mér. Með úfinn koll og andlitsmálningu gærkvöldsins. Leit á mig fallegum þynnkuaugum og brosti lítillega. Ég brosti á móti. Svo var hún þotin niður í bæ. Vonandi var gaman í nótt.
Svarthvítt sjónvarp, vinstri umferð og skífusími
Beggi Ólafs, Frosti Logason, Jordan Peterson, Andrew Tate, og lærisveinar þeirra eiga það sameiginlegt að líta niður á konur, samkynhneigða og eiginlega alla aðra og telja sig þeim æðri.
Að þeir eigi að stjórna ferðinni og konur eigi að hanga á bak við vaskinn meðan þeir bera björg í bú. Sjái fyrir sér og sínum. Slíkt sé sönn karlmennska. Algjörar tímaskekkjur með hausana á sér kyrfilega skrúfaða upp í rassgat sjötta áratugar síðustu aldar.
Svarthvítir draumar um fyrri tíð þegar konur voru hlýðnar og prúðar og hommar bjuggu inn í skáp. Þegar veröldin snerist í kringum rassgatið á þeim þar sem þeir sátu í hægindastólnum inn í stofu reykjandi pípu og biðu eftir kvöldmatnum.
#metoo hefur farið illa með þessa vesalings menn. Gert út um alla þeirra drottnunardrauma. Í sárabætur hafa þeir eignast aðdáendahóp ungra manna sem telja það til réttinda sinna að fá að stunda kynlíf með konum óháð samþykki þeirra. Svokallaða Incels.