Látið mig í friði!

Hvers vegna er alltaf verið að böggast í mér þegar ég hætti mér í matvöruverslanir? Núna síðast í Hagkaup í Kringlunni.

Einhverjir þrír guttar með teiknuð yfirvararskegg og hatta að þykjast vera blaðamenn. Ráku gemsana sína upp í andlitið á mér og báðu um viðtal sem ég neitaði auðvitað. Bögguðu mig svo aftur þegar ég var að klára við sjálfsafgreiðslukassann og buðust til að borga fyrir mig.

Núna er ég orðinn aðhlátursefni á einhverri unglingasíðu. Geðvondi miðöldungurinn með allt á hornum sér. Þessi náungi sem maður sór þess eið sem unglingur að verða aldrei.

Sorglegt

Fyndið að fylgjast með Kötu forsætisráðherra benda á bankastjóra Íslandsbanka í stað þess að benda á glæpamanninn sem hún hefur setið með í ríkisstjórn árum saman.

Sorglegt raunar.

Á milli staða

Ég er sennilega einn af síðustu íslensku Móhíkönunum sem ferðast með strætó á milli staða. Síðasti miðaldra, íslenski karlmaðurinn sem á ekki bifreið til að flytja mig á milli bæjarhluta.

Restin af farþegum strætó eru af öðru bergi brotin. Og bílstjórinn einnig.

Ég ferðast til annarra landa þegar ég fæ mér far með strætó.

Þar er sjaldan töluð íslenska lengur.