Kosningar í haust

Íhaldið og kommarnir skiptast á að sparka í punginn á hvor öðrum. Allt logar stafnanna á milli á stjórnarheimilinu. Stjórnin er loks komin á endastöð.

Sjálfgræðgisfólk gefur skít í forsjárhyggju Vinstri-Vænna þegar kemur að áfengismálum og blessar netverslun með hinn heilaga kaleik. Daðrar svo grímulaust við útlendingaandúð á sjálfum Bessastöðum.

Rauðliðar svara á móti með því að banna hvalveiðar. Kristján Loftsson er í þessum rituðu orðum að brjóta innanstokksmuni í Valhöll. Algjörlega froðufellandi og hótandi að láta af milljóna stuðningi sínum við flokkinn.

Hlakka svo til kosninganna í haust. Að fá loks tækifæri til að sópa þessari verklausu ríkisstjórn til hliðar. Hér þarf að bretta upp ermar og taka til hendinni eftir aðgerðarleysi og stöðnun.

Gamli maðurinn og sorpið

Eftir gráan og votan mánudagsmorgun fór að birta aðeins til þegar ég þrammaði heim úr vinnu. Kom við í Krónunni og lenti í úlfatíma dauðans. Allir krakkar grenjandi, rellandi og dauðþreyttir. Var fljótur að koma mér út.

Er ég nálgaðist blokkina mína sá ég aftur þennan gamla mann með sorpið. Karl á áttræðisaldri með sixpensara og rusl í glærum pokum sem hann setti í djúpgámana okkar. Þeir þrír sem ég sá lentu í plastgámnum. Og voru greinilega almennt sorp. Og hann er ekki einu sinni nágranni minn.

Búinn að leggja bílnum sínum í stæði hinum meginn götunnar. Eflaust búinn að dæla fleiri pokum í gámana okkar áður en mig bar að. Ekki nema von að gámarnir fyllist svona fljótt þegar einhver gamalmenni úr öðrum hverfum koma með ruslið sitt. Hvað gengur manninum eiginlega til?

Kunni ekki við að smella mynd af honum og sá ekki númerið á bílnum hans. Sá hann bara setjast inn og fá sér bita af brauðsneið og kaffisopa áður en hann hvarf á braut. Kannski er hann að fela sönnunargögn um glæp.

Gamli maðurinn og glæpurinn.

Barist við vindmyllur

Straumur tímans hlýfir engum. Framþróun hans heldur áfram óháð skoðunum afturhaldssinna landsins.

Tækniframfarir krefjast annarra viðskiptahátta en hafa tíðkast fram að þessu. Úrelda boð, bönn og ríkisreknar áfengisverslanir.

Netverslunin er að taka yfir eftir Covid. Og þar pantar tæp 20% landsmanna sér áfengar veigar í stað þess að þramma í Vínbúðina eftir dýrari vöru.

Vissulega í gegnum réttaróvissu er varðar erlendar netverslanir með vöruhús stödd hérlendis. Smuga í gegnum þvermóðskulög landsins er varða áfengi.

Án efa mun hið heilaga Alþingi fylla í gatið með lagasetningu í stað þess að bjóða upp á frekara frelsi í málaflokknum með íslenskri netverslun eða áfengi í matvöruverslunum.

Hvernig væri að opna sérverslun ríkisins með sælgæti og aðrar sykurvörur! Sem eru mun hættulegri en bjórsull, léttvín og spíri. Gefa út skírteini sem sykursjúkir fá ekki til að versla þar.