Fokið er í flest skjól þegar Kristján Hreinsson Skerjafjarðarskáld er látinn fara frá Endurmenntun Háskóla Íslands fyrir að tjá sig um transfólk. Liðið sem rak hann hefur án efa ekki einu sinni lesskilning til að að melta texta Kristjáns til fulls. Ekki frekar en ég. Til þess er Kristján of vel gefinn og misskilinn.
Það má nefnilega ekkert lengur. Hvorki tjá sig af hreinskilni né vera þú sjálfur. Góða fólkið tekur það ekki í mál. Það má ekki pissa á bak við skúr. Þú átt bara að halda í þér þar til þú springur og mígur á þig.
Það má til dæmis ekki hafa orð á því að það er ekki lengur hægt að ferðast með vissum leiðum Strætó vegna þess að allir farþegar vagnsins eru með símana sína á hæsta styrk spilandi tónlist frá sínu heimalandi eða í myndsímtölum við ættingja hinum megin á hnettinum með tilheyrandi látum.
Að hafa orð á slíku er víst rasismi…samkvæmt góða fólkinu sem ferðast ekki með strætó.