Mér er virkilega brugðið

Er það bara ég? Kannski eitthvað við ásjónu mína eða líkamsbyggingu? Af hverju lendi ég alltaf í einhverju svona?

Brunaði í Mjóddina eftir vinnu með leið 17 til að kíkja í Nettó eftir súrum hval og kannski svartfuglseggjum fyrir mömmu.

Allt gott og blessað þar til skugga dregur fyrir sólu og tveir lögregluþjónar standa fyrir framan mig inn í miðri verslun. Glæsilegt par um þrítugt. Hann spyr mig varfærnislega hvernig atburðarrásin hafi hafist. Vill fá mitt sjónarhorn á af hverju ég réðist á unga stúlku á göngugötunni með því að slengja bekk utan í annan fót hennar svo sá á. Lýsing hennar á árásarmanninum passi við mig.

Steinhissa ég með súran hval og salat í kerrunni hváði á móti. Sagðist vera nýkominn í Mjóddina og ekki enn stigið fæti í göngugötuna. Álengdar sá ég lögreglukonuna ræða við að ég held föður stúlkunnar og vin hans. Þeir horfðu á mig hatursfullum augum. Meinta ofbeldismanninn sem skellti heilum bekk á fót dótturinnar og þóttist ekkert kannast við það. Skil þá vel.

Lögreglumaðurinn dró mig til hliðar til að hripa niður upplýsingar og skoða skilríki. Tjáði mér að nú sætti ég stöðu grunaðs manns og ætti von á símtali næstu daga eftir að búið væri að fara yfir upptökur öryggismyndavéla í göngugötunni. Frábært!

Átti ég að öskra og æpa eða halda ró minni og vera samvinnuþýður. Kaus rónna enda engin ástæða til að æsa sig saklaus maðurinn. Lögreglan var bara að sinna starfi sínu, þó mér þyki skrítið að þau, og þá sérstaklega hún með viðhorfi sínu, gerðu bara ráð fyrir að ég væri sekur.

Verst þykir mér að það var bent á mig. Eftir lýsingu gegnum þriðja aðila. Fyrir að vera sköllóttur, miðaldra, þéttvaxinn og hvítur. Get aldrei sett mig í spor fólks sem er tekið til hliðar vegna húðlitar, en skil af hverju því er brugðið og er óttaslegið. Ég varð hræddur í fyrsta sinn í lengri tíma.

Mér var virkilega brugðið og hræddur um að vera leiddur í járnum niður á Hverfisgötu. Lokaður inn í gluggalausum klefa með alla mína innilokunarkennd.

Eftir að lögregluþjónarnir kvöddu fór ég að skima eftir föðurnum og vini hans af ótta við áras úr þeirri átt. Lífið á ekki að vera svona. Ætla aldrei aftur í Mjóddina.

Annað sætið

Heyrði í Langa Sela og Skuggunum í dag og hugsaði með mér: þeir hefðu komist í úrslitin með rokkabillíið. Við kjósum alltaf lag sem við höldum að muni komast áfram en reynist svo miðjumoð svipað öllum hinum. Örugga lagið.

Sendum oft atriði sem við teljum örugg í stað þess að velja annað sætið eins og Karen eða Ég lifi í draumi.

Gerum sömu mistökin í kjörklefanum og kjósum aftur og aftur yfir okkur leiðindi og stöðnun því við þorum ekki að taka næsta skref og hoppa yfir lækinn af ótta við að blotna í fæturna.

Upphafning

Vöövastrumpur átti afmæli og hélt svaka veislu með Exit-þema. Eftir norskum þáttum um ofurríka aumingja og svallveislur þeirra þaktar kókaíni, melllum og viðbjóði. Eitthvað svo í takt við allt sem þessi kjötaði kauði og vinir hans hafa tekið sér fyrir hendur í gegnum tíðina. Og fólk mætti unnvörpum til að láta taka af sér myndir sokkalaust í mokkasíum með handtöskur í hendi.

Fótboltastrumpur sneri aftur á Klakann eftir að hafa stungið í stutta stelpu í útlandinu og sætt rannsókn fyrir. Allt fyrirgefið og öll lið bera í víurnar við hann. Jafnvel norski landsliðsþjálfarinn. Við elskum breyska menn. Þetta var bara misskilningur og stúlkan hóra í leit að peningum. Gott ef albanska mafían og George Soros voru ekki eitthvað viðriðin málið.

Rappstrumpur er enn eitt fyrirbærið sem er upphafið fyrir enga hæfileika. Er sem stendur með að minnsta kosti fjögur lög á Íslenska listanum. Lög sem eru algjör drulla og hljóma öll eins. Enn ein fótboltahetjan sem komst ekki í atvinnumennsku og ætlar í staðinn að verða rappstjarna með góðum fjárhagslegum stuðningi frá afa sínum. Vonandi er þetta bara auglýsing fyrir súkkulaði.