Góða fólkið

Eflaust telst ég til „góða fólksins“ fyrir að tala fyrir jafnrétti, gegn feðraveldinu, með þolendum, með flóttafólki og innflytjendum, með konum, með áreittum ungum stúlkum og gegn frægum listamönnum sem telja það til réttinda sinna að fá að herja á þær óáreittir.

Telst samt ekki til „góða fólksins“ sem meikar ekki að búa við hlið flóttafólks og innflytjenda eða ferðast með þeim í strætó á milli staða. Hvað þá að bjóða þeim far með sér í Teslunni sinni.

Í kringum mig býr fólk víðsvegar af hnettinum og ég ferðast glaður með þeim í strætó án nokkurra vandkvæða. Vissulega krefjandi á stundum með mörg tungumál í eyrunum en ætíð þess virði. Getur hitt „góða fólkið“ sagt hið sama innilokað í sínum blikkbeljum á leið í úthverfin!

Ef ég væri lítill í mér

Ef ég ég væri lítil sál með minnimáttarkennd, þá væru hnefar mínir bólgnir og þakktir sárum.

Bara af því að mæta gaurum á leið til vinnu eftir Borgartúni og Laugavegi.

Hvað er að hrjá suma gaura sem telja að mæta öðrum á förnum vegi sé spurning um völd. Að tapa ekki. Gefa ekki eftir sitt?

Setja handleggina út og til hliðar, blása sig út og rekast viljandi utan í mig í von um viðbrögð sem þeir munu aldrei fá því þeir eru andlegir dvergar með djúp sálfræðileg vandamál sem þarfnast aðkallandi athygli sérmenntaðra.