Eftir þriggja ára hlé gat ég loksins sótt jólahlaðborð með vinnufélögum. Var svo sáttur að mér var sópað út ásamt ruslinu rétt fyrir miðnætti. Virkilega góð tilfinning að geta setið og spjallað yfir góðum mat og drykk fram eftir kvöldi án sóttvarnagríma og fjarlægðartakmarkanna.
Author: Þrasvarður
Einkavinavæðing almenninssamgangna II
Mikið er orðið augljóst að einkavinavæða á almenningssamgöngur höfuðborgarsvæðisins. Núverandi þjónusta fer versnandi með hverjum degi sem líður. Dónalegir og þungfættir bílstjórar sem hleypa manni kannski út þegar hringt er bjöllu. App sem virkar stundum. Vagnar sem koma jafnvel en ekki alltaf. Strætó getur varla greitt reikninga sína við mánaðarmót.
Nú síðast fékk ég ekki að fara úr því ferðafólk fékk að fara út að framan. Sleppti bílstjórinn þá bara að opna dyrnar að aftan. Fékk náðarsamlegast að fara út næst en bílstjórinn passaði sig á að skella hurðinni snemma svo að ég næstum festist með pakpokann í hurðinni.
Enda ferðast ég varla lengur með strætó nema inn í Kópavog tvisvar í viku til að kíkja á mömmu gömlu og Holtagarða /miðbæ til að ná í mjöð. Gæli oft við að hoppa aðra leiðina á hlaupahjóli. Bara til að halda geðheilsunni. Strætisvagnar eiga ekki að aka eins og sportbílar. Eitthvað sem þessir erlendu hausar sem eru ráðnir undir stýri virðast ekki skilja.
Eða skilja bara mjög vel og fylgja skipunum yfirboðara sinna orðrétt. Sem er að rífa niður ánægju farþega svo við tökum því fegins hendi þegar allt draslið ásamt Borgarlínu verður einkavinavætt. Jafnvel þó fargjaldið hækki um helming. Komumst svo líklega að því þá, að sömu andskotans bílstjórarnir eru enn við stýrið með sama viðhorfið.
Fáar sögur úr mínum skóla
Eftir að hafa hlustað á hlaðvarpið um Skeggja kennara í Laugarnesskóla sem fór inn á buxur drengja og niðurlægði stúlkur sem dirfðust að bera eyrnarlokka eða varalit, þá fór ég að pæla í kennurum minnar grunnskólagöngu. Voru þau öll til fyrirmyndar?
Man ekki eftir neinum sérstökum perra sem herjaði á nemendur. Að vísu „villtist“ einn inn í sturtuklefa gaggóstúlkna með móðug gleraugu og þóttist ekki sjá neitt. Yeah right! Var að mig minnir slegið á fingur hans og atvikið skrifað á erfiðan skilnað sem hann var að ganga í gegnum á þessum tíma. Ekkert #metoo í gangi þá.
Eftir á að hyggja var ég samt aldrei sáttur við hegðan eins kennara sem var í nokkru uppáhaldi hjá mér. Hvernig hann talaði niður til nemenda sem stóðu sig ekki vel í náminu. Steininn tók úr þegar hann sagði við, að ég tel strák á einhverfurófi, að verið væri að koma að sækja hann þegar sírenur vældu í fjarska.
Nemar sem mættu illa undirbúin í tíma var sagt að fara til ritarans og fá strætómiða til að fara niður að tjörn til að gefa öndunum. Enginn skilningur var á mögulega erfiðum heimilisaðstæðum, námserfiðleikum eða lesblindu. Allir áttu að vera sigurvegarar. Enda kennarinn fyrrverandi fótboltahetja.