Haust

Sumarið sem aldrei kom er á enda runnið. Helvítis haustið dynur á okkur og svíkur engan.

Enn hangi ég heima eins og hor upp á vegg. Örlög mín í höndum einhvers skosks andskota sem vill ekki leyfa mér að mæta aftur til vinnu fyrr en eftir enn eina myndatökuna. Röntgen í þetta skiptið og það á hinum fætinum.

Jafnvel þó veiki fóturinn sýni talsverð batamerki. Átti jafnvel að fá að stíga aðeins í hann í tilraunaskyni. En, nei! Alltaf einhver ný ástæða til að halda mér lengur heima og frá vinnu. Markmiðið virðist vera að koma mér á örorku. Að minnsta kosti sjá til þess að ég missi starfið vegna of langrar fjarveru.

Get að minnsta kosti ekki lifað lengi á sjúkradagpeningum frá Sameyki. Neyðist sennilega til að segja mig á sveitina þegar þá þrýtur fyrir jól.