Það má ekkert lengur

Þú neyðist til að viðra skoðanir þínar undir nafnleysi. Annars ertu krossfestur af góða fólkinu sem telur sig vera að vernda tjáningarfrelsið með því að segja þér að halda kjafti.

Þess vegna krota ég hér undir nafnleysi. Hef enga þörf fyrir að birta þrasið mitt undir nafni. Finnst bara gaman og hreinsandi að tjá mig hér á netinu um málefni líðandi stundar.

Og afleiðingin af því að múlbinda fólk. Menn eins og Trump komast til valda og tortíma lýðræðinu.

Strætó?

Eitthvað á víst að gíra upp kerfi strætó með tíðari ferðum og lengri þjónustu. Spurning um að gefa dætó smá séns áður en ég fer að henda fé í bílkaup.

Samt. Nú þarf að fjölga vögnum með verktökum. Einhverjar druslur lagðar til eins og í den með snarvitlausa bílstjóra sem kunna hvorki íslensku né ensku.

Sjáum til. Óþarfi að mála skrattann á vegginn fyrirfram.

Breytingar til hins betra

Hef ákveðið að hætta að velta mér upp úr vitleysunni sem appelsínugula fyrirbærið gerir vestan tjarnarinnar. Kemur mér ekki við, get ekkert gert í því og mun líða mun betur ef ég hugsa ekki um þetta versta úrhrak sem gat dunið aftur á annars ágætri þjóð föðurafa míns.

Eins ætla ég að hætta að láta góða fólkið fara í taugarnar á mér. Málstað þeirra þá stundina og hneykslun þeirra á okkur hinum sem nennum ekki að velta okkur upp úr einhverri vitleysu út í heimi sem við getum ekkert gert í til að breyta.

Og að lokum ætla ég að hætta að ferðast með strætó. Fullreynt dæmi. Hangi núna á sölusíðum bílasala. Langar helst í rafbíl. Eða sjálfskiptan. Get ekki lengur notað vinstri fótinn örugglega á kúplinguna. Hefur ekki sama kraft og áreiðanleika og áður.