Með stöðu grunaðs manns ei meir

Tékkaði hjá lögreglunnI hvort ég væri enn með stöðu grunaðs manns eftir atvik í Mjóddinni um árið þegar ég var mistekinn fyrir einhvern rugludall líkum mér og sakaður um að hafa ráðist á 10 ára stúlku í göngugötunni.

Nýstiginn inn í Nettó úr strætó að leita að súrum hval fyrir mömmu gömlu þegar tvö lögreglubörn hjóluðu í mig. Drengurinn spurði mig af hverju ég hefði gert þetta og ég kom af fjöllum. Stúlkan horfði á mig eins og ég væri skíturinn undir skóm hennar.

Kvöddu mig með þeim orðum að ég væri með stöðu grunaðs manns. Var aldrei leiddur fyrir framan stúlkuna sem mér skildist að væri enn inni í lögreglubílnum. Og faðir hennar og einhver annar gaur horfðu á mig morðaugum álengdar meðan lögreglustúlkan ræddi við þá.

Hinsegin dagar

Komst ekki í gleðigönguna í fyrra vegna fótameins. Ætla að bruna núna. Alltaf gaman. Og bara þessi tilfinning að sjá allt fólkið sem mætir til að styðja málstað og baráttu hinsegins fólks á Íslandi. Í öðrum löndum er slíkur stuðningur ekki sjálfsagður.

Megum ekki gefa eftir þvi bakslagið getur alltaf læðst aftan okkur. Og gerðist reyndar í fyrra þegar einhverjir unglingsdrengir voru að angra fólk í göngunni niður Skólavörðustíg. Asnalegt þegar fólk sem ekki sammála er að mæta á staðinn til að mótmæla og skemma gleðina. Verið bara heima og bölvið niður í bringuna á ykkur!

Eldfimt ástand

Ástandið í henni Ameríku er svo eldfimt að það er einu voðaskoti frá borgarastyrjöld. Frekja og óvirðing Republikana fyrir annars öldnu og asnalegu kosningakerfi ríkjanna fimmtíu er þvílík að fulltrúaþingmenn Demókrata í Texas hafa flúið til Illinois og Kaliforníu til að koma í veg fyrir kosningu um kjördæmaskipan sem mun tryggja Republikum fimm sæti til viðbótar 2026.

Kannski væri réttast fyrir bláu ríkin á vestur- og austurstöndinni að sameinast Kanada.