Atkvæði kastað á glæ

Dröslaðist á kjörstað í Laugalækjarskóla á heimleið frá mömmu. Hnéhjólið vakti lukku meðal snobbhausanna úr hverfinu mínu eða hitt þó heldur. Tveir sjomlar úr flokknum voru fyrir aftan mig að ræða hvernig þeir gætu haft fé af fólki.

Í annað skipti á ævinni kaus ég vinstra megin við kratahjartað. Ætlaði að koma kjaftöskum á þing sem mótvægi við alla þessa borgaraflokka. En atkvæðið mitt féll dautt niður samkvæmt einhverri reglu fjórflokksins. Kommar eru illa séðir í sölum valdsins.

Vona bara að valkyrkjunar nái saman um stjórn. Meika ekki meira af Bjarnabófanum.

Sjálfstæðisflokkur úr öllum áttum

Kristrún, Þorgerður og Inga koma allar úr Sjálfstæðisflokknum. Allar bestu vinir Bjarna Ben. Restin er Framsókn skipt milli tveggja flokka. Rödd litla mannsins er horfin af Alþingi.

Velferðarkerfið á ekki von á góðu næstu fjögur árin. Vinstrið hefur verið þaggað niður með fimm prósent reglunni. Fulltrúalýðræði Íslands er ekki lýðræði heldur öryggisnet fyrir völd fjórflokksins.

Alþingi Íslendinga er leikhús fáranleikans. Leiktjald til að telja okkur í trú um að lýðræði ríki á þessu skeri. Að 63 kjörnir bótaþegar ríkisins með lágmark meira en eina og hálfa milljón á mánuði auk kostnaðargreiðslna og stjórn á eigin mætingu séu að starfa í okkar þágu í stað sinnar eigin.

Ég kaus í mitt síðasta skipti síðastliðinn laugardag. Rúllandi á hnéhjólinu með allra augu á mér eins og eitthvert sirkusatriði.