Þarf kjaftaska á þing

Frændi minn trúir því ekki að ég hafi kosið Sósíalista. Við báðir af rótgrónum krataættum langt aftur suður í Hafnarfjörð. Trúðu mér frændi! Ég kaus Sósíalista. Einu rödd hinna minnimáttar.

Alþýðuflokksrót Samfylkingarinnar er löngu dauð. Rétt eins og rætur Alþýðubandalagsins og Kvennalistans. Samfylkingin er orðinn flokkur háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna. Ekki verkafólks eða þeirra verst settu.

Með formann úr Sjálfstæðisflokknum rétt eins Viðreisn og Flokkur fólksins. Sem munu snúa aftur heim í fang Bjarna Ben. sem getur jú ekki verið lyklalaus í stjórnarandstöðu í engri stöðu til að sukka og svínast með ríkiseigur til vina og ættingja.

Nú er enginn rödd fyrir litla fólkið á þingi. Bara sex borgaraflokkar sem er skítsama um aldraða, öryrkja og fátæka.

Af hverju var ég að kjósa!

Samviska mín er hrein! Atkvæði mitt féll dautt niður með Sósíalistum og ruglið sem kemur næst er því ekki á mína ábyrgð.

Spá mín um næstu ríkisstjórn er Samfylking, Viðreisn og Sjálfstæðisflokkur. Enginn segir nei við Bjarnabófann. Síst af öllu flokksforkonur sem voru áður í sama flokki og hann.

Þess vegna fylgdi ég sannfæringu minni og veitti Sósíalistum atkvæði mitt. Fólki sem virkilega berst fyrir þeim lægst settu.

Samfylkingin er flokkur opinberra starfsmanna með mastersgráðu sem lágmark. Verkalýðurinn er þeim löngu gleymdur og grafinn.

5% reglan er fáranleg og ólýðræðisleg. Mótuð af fjórflokknum svo uppbótarþingsæti falli þeim ávallt í skaut sama hvað.

Fulltrúalýðræðið er ólýðræðislegt. Fari það til Helvítis og lengra ef það getur. Ég heimta BEINT lýðræði gegnum netið!

Vertu sæl Ameríka!

Sem nemi í sagnfræði án gráðu, þá er ég hættur að undrast á gjörðum mannkynsins. Raunveruleikinn reynist alltaf vera ótrúlegri en skáldskapurinn. Mannkynið virðist einbeitt í að tortíma sjálfu sér samkvæmt eigin vilja. Bara af því að þau geta það.

Vonandi verður appelsínugula forsetagerpið þroskaðri núna en í fyrri forsetatíð. Efast samt um það. Ef þú ert ekki búinn að taka út fullan þroska um sjötugt, þá er nú varla mikil von fyrir þig.

Og miðað við fullyrðingar hans og loforð í kosningabaráttunni, þá megum við búast við að lýðræðið verði tekið af lífi og einræði komið á þar sem Trump fjölskyldan verður að erfðaveldi.

Konur geta pakkað saman og flutt til Kanada. Þeirra réttindi verða ekki virt í Ameríku Trump. Innflytjendur verða réttdræpir. Demókratar neyðast til að flýja til fjalla.

Heimsbyggðin á auðvitað að sýna Bandaríkjunum fingurinn fyrir að vera svona miklir fávitar. Að kjósa yfir sig slíkan trúð í annað sinn réttlætir að önnur vestræn lýðræðisríki hunsi Bandaríkin næstu fjögur árin.