Samfylking, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn.
Kosningar
Bjarnabófinn stal glæpnum og boðaði til blaðamannafundar á undan hinum formönnum stjórnarflokkanna. Rétt eins og Paul McCartney forðum á undan hinum Bítlunum.
Telur eflaust að þannig fái hann aftur lyklavöldin að Stjórnarráðinu eftir kosningarnar í lok nóvember. – RANGT!
Ný stjórn án D, B og V mun taka við.
Úti á meðal almennings
Nýtti mér fágætt tækifæri til að virðast eðlilegur þegar ég heimsótti Dr. Krabba í Mjóddina. Er enn í góðum málum og engin breyting. Á víst að geta lifað með þessu fram á elliár.
Var ekki tekinn til yfirheyrslu af lögreglunni eins og forðum. Og slapp við að vera rændur af furðufuglunum sem venja komur sínar þangað.
Staulaðist um á hnéhjólinu í leit að hraðbanka Arion. Fann hann loks inn í Nettó. Er hvorki fugl né fiskur. Bara hægt að taka fé út úr honum. Ekki greiða reikningana hennar mömmu sem er ekki enn komin með heimabanka. Verð að reyna að tengja Auðkennisappið svo ég get sinnt hennar málum á netinu.
Notaði tækifærið og brunaði í gegnum Nettó áður en Pant skutlaði mér aftur heim. Ætlaði að koma við á Subway en hætti við því sjoppan var full af einhverjum dúddum á unglingsaldri. Hefði ekki sloppið lifandi þaðan út.
Var gaman að renna í gegnum matvöruverslun upp á gamla mátann í stað þess að panta heim á netinu. Missti mig aðeins. Ætlaði bara að grípa nokkra hluti með mér en þeir margfölduðust áður en komið var að kassanum.