Svipirnir fara á stjá

Að hanga einn heima eins og hor upp á vegg gerir engum gott. Allt of mikill tími gefst til að hugsa og gera upp gömul mál í huga mér. Kljást við svipina sem fara á stjá um nætur þegar ljósin eru slökkt og myrkrið og þögnin ráða ríkjum.

Stúlkur fyrri daga sækja að mér um nætur til að minna mig á mistök mín. Að hafa ekki bundist þeim tryggðarböndum og sökkt mér í samband við þær á sínum tíma heldur stokkið logandi hræddur frá borði af ótta við að særast á hjarta.

Rúmið getur orðið ansi kalt og einmanalegt um nætur þegar kroppurinn þráir fátt heitar en faðmlag, nánd og hlýju.

Samgönguáætlun

Enn er lengt í snörunni. Loforðin taka aðeins lengri tima, sorry með mig! Tvöfalt dýrari áætlun. Eina sem er á leiðinni er einhver grjótgarður þar sem Fossvogsbrúin á að rísa. Kópavogsmegin.

Þetta er svo lamað að það hálfa væri nóg! Göng undir Miklubraut, come on!

Takið frekar þessa þrjúhundruð milljarða og styrkið okkur til að kaupa rafbíla og rafhjól.

Bikar minn er barmafullur

Að hanga heima eins og hor upp á vegg gerir engum gott. Síst fyrir geðheilsuna.

Rúmið hefur verið minn besti vinur. Fátt betra en að liggja þar hálfan sólarhringinn og helst lengur til að drepa tímann og minnka álagið á vinstri fótinn. Restin af sólarhringnum eytt í gláp á þáttum sem engu máli skipta.

En nú er nóg komið. Bikar minn er barmafullur. Tími til kominn að rífa sig upp af rassgatinu og taka þátt. Mæta aftur til vinnu. Hætta að vorkenna sér.