Útleiga um Þjóðhátíð

Eitthvað held ég að íbúar eyjunnar fögru hugsi sig um tvisvar að leigja út hýbýli sín að ári liðnu. Og þá síst til tíu stráka sem skila húsinu til baka í rúst með illa lyktandi sokka og nærbuxur út um allt. Ónýt gólfefni og garðhúsgögn. Beyglaðar þakplötur og borðplötur í eldhúsinu.

Haldandi garðpartý með Patrik og Húbba Búbba hoppandi um miðjan dag á pallinum og birta það á netinu. Hvar er virðingin fyrir eigum annarra. Þakklætið fyrir að fá leigt húsaskjól undan skítaveðri helgarinnar?

Fólk með vonlausan tónlistarsmekk virðist vera sama fólkið og gefur skít í allt og alla.

Skárri fótur

Eitthvað virðist vera að rofa til hvað vinstri fótinn varðar. Hitinn stiglækkandi og jafnvel von á að geta stigið örlítið í hann eða tyllt honum eftir að niðurstöður úr sneiðmyndatöku og röntgen liggja fyrir innan mánaðar.

Hægri fóturinn virðist einnig hafa hætt við að sýkjast alvarlega og bólgna eftir að ég innbyrði nokkra tugi sýklalyfstafla og passaði mig betur.

Hata að geta ekki gengið eðlilega á milli staða. Langar stundum til að öskra á menn sem spígspora áhyggjulausir framhjá þegar ég sit úti á svölum. Segja þeim að meta slíka gjöf. Hugsa betur um heilsuna og fæturna.

Málefnisþurrð

Frí skólagögn og máltíðir valda Áslaugu Örnu áhyggjum. Að börn læri ekki að virða eigur með þessum hætti. Á meðan bendir kennari á alla óskilamunina í geymslum grunnskólanna eftir veturinn. Rándýran fatnað, heyrnartappa og jafnvel farsíma. Lítil virðing virðist borin fyrir slíkum eigum.

Það sem aðallega fer í taugarnar á prinsessu eins og Áslaugu er að eignamunurinn sést ekki eins greinilega milli barna þegar þau öll eiga öll kost á mat og skriffærum óháð efnahag foreldra. Hvernig læra þau á kapitalismann þannig? Að kjósa Sjálfstæðisflokkinn síðar í lífinu.