Svartir hundar Churchill

Auðvelt er að verða svörtum hundum (þunglyndi) að bráð þegar maður hangir heima með annan fótinn upp í loft og ekkert að gera. Netflix dugar bara svo skammt.

Í síðustu viku var ég langt kominn með að leggja árar í bát og gangast örorkunni á hönd. Þrátt fyrir að vinstri fóturinn virðist smá saman vera að ganga saman og hitinn í honum að lækka.

En slíkt gengur einfaldlega ekki upp. Verð að hrista af mér félagsfælnina og mæta aftur til vinnu. Koma mér í gang. Koma mér út úr húsi og á meðal fólks.

Prófaði ferðaþjónustu fatlaðra hjá Pant á fimmtudaginn. Virkaði vel. Mínístrætó með þjónustu. Einangrunin er rofin!

Akstur á undarlegum vegi

Eftir nokkurra vikna umsóknarferli var mér í fyrstu synjað um niðurgreidda akstursþjónustu hjá Reykjavíkurborg. Eftir áfrýjun fékk ég hana þó ég gegn en skildist í fyrstu að hún væri mun kostnaðarsamari en ég áætlaði.

Var víst að lesa verðskrá eldri borgara sem virðast þurfa að greiða 2,5 strætógjald (1.750 kr.) fyrir hverja ferð. Sem er náttúrulega algjör hneisa ef sönn reynist!

Verðskrá fatlaðra er víst hálft strætófargjald (315 kr.) fyrir ferð ef pantað er með dags fyrirvara. Annars eitt fargjald (630 kr.) ef pantað er samdægurs. Sem hljómar mun betur í mín eyru sem hef fengið samþykkta þjónustu fram að áramótum.

Farin verður prufuferð á mánudagsmorgun til að plana endurkomu til starfa úr þessari þriggja mánaða útlegð og leiðindum. Sjá hvort að ég geti nú ekki að minnsta kosti sinnt hálfu starfi til að byrja með.