Vangaveltur

Frekjuhundurinn fékk sínu framgengt og verður forsætisráðherra. Langt í frá sami mannasættirinn og Katrín sem hélt þessu samstarfi þriggja ólíkra flokka gangandi í næstum sjö ár. Verður stutt í næstu alþingiskosningar.

Eftir frekari umhugsun þá vil ég Jón Gnarr sem forseta. Veislurnar á Bessastöðum yrðu mjög skemmtilegar og hann myndi aldrei nenna nema einu kjörtímabili rétt eins og í borginni. Fengjum því að kjósa aftur að fjórum árum liðnum. Sem er gaman.

Kata getur haldið áfram að skrifa glæpasögur. Næsta yrði um samstarfið við flokkana tvo. Baldur getur haldið áfram að kenna leiðindi við Háskóla Íslands. Er ekki viss um að Felix komi honum í embætti rétt eins og Guðrún Katrín gerði fyrir Ólaf Ragnar 1996.

Annars er öll kosningabaráttan framundan. Margt getur breyst á sjö vikum. Jafnvel einhver enn annar frambjóðandi skotist fram úr þremur efstu.

Aumingi með Bónuspoka

„Ég er aumingi með Bónuspoka og Ríkið er búið að loka“ – Gunnar Lárus Hjálmarsson (Dr. Gunni).

Verst að ég hef ekkert komist í Bónus síðustu vikurnar né getað pantað frá þeim því þau hafa enga netverslun. Eitthvað sem ég hef reitt mig á upp á síðkastið frá Nettó og Heimkaup. Á eftir að prófa Krónuna.

Hef setið sveittur heima með fótbrotna vinstri rist fangaða í plastfót frá Össur hf síðastliðinn mánuð. Og í ofan á það verið greindur með einhvern Charcot-fót sem kemst kannski aldrei í samt lag. Jeeeiiiii!!!!

Hitastigið í fætinum verður víst að lækka undir tvær gráður svo ég megi fara að tylla honum aftur. Sem er rugl, því ég get ekki komist á milli staða án þess. Er kominn með hjólastól sem ég nota ekki því að ég á hvorki bíl né hef enn fengið ferðaþjónustu frá borginni. Fer víst fyrir nefnd í vikunni. Jeeeiiii!!!!

Er með eitthvert hnéhjól á leigu sem dugir innandyra og fyrir styttri vegalengdir. Smá ljós í myrkrinu. Flaug samt á hausinn þegar ég var að koma úr heimsókn til mömmu á Borgarspítalann um páskana. Þurfti tvo fíleflda karlmenn til að koma mér á fætur.

Virðist sem vinstri hluti skrokksins sé að gefa sig. Er kominn með smá þoku á vinstra augað. Eins gott að finna sér nýjan augnlækni. Sá gamli er víst kominn á eftirlaun. Jeeeeiiii!!!!

Hvað gefur sig næst?

Frú forseti

Æ, eigum við ekki bara að klára þessar kosningar til forseta Íslands sem snöggvast í stað þess að þræla okkur í gegnum viðbjóðslega kosningabaráttu háða af réttlætisriddurum athugasemdakerfa netsins.

Skellum þremur efstu á kjörseðil og kjósum strax. Baldur, Jón og Katrín og málið er dautt.

Ég veðja á Kötu vegna persónufylgis hennar. Það er kominn tími á konu á Bessastaði. Auk þess hefur einstaklingur með skegg aldrei setið þar við völd. Allir með vel rakaða vanga frá Sveini til Guðna.

Höfðum stjórnmálaprófessor þar í tuttugu ár. Þurfum ekki annan. Jafnvel þó hann sé samkynhneigður. Eða trúð úr Reykjavík sem gerði ekkert gagn umfram aðra borgarstjóra á undan honum.

Kata er best til þess fallin að verða næsti forseti af þessum skrilljón frambjóðendum sem telja sig þess verð að taka við af Guðna. Hún kann hlutverkið utan af. Hefur hitt allt liðið í útlöndum og er málkunnug þeim.

En sumir vilja refsa henni fyrir að svíkja lit og þjást með flokkunum tveimur í ríkisstjórn í sjö ár. Hvernig hefðu þau sjö ár verið án hennar fyrir okkur hin?