Hor upp á vegg

Hjólastóllinn er mættur en engin akstursþjónusta. Læknisvottorðin standa á sér. Enda ekkert sérstaklega hrifinn af því að vera rúllað á milli staða með fullt af öðrum vitleysingum og vera jafnvel skilinn eftir við TBR braggann eins og strákgreyið um daginn

Þar sem ég er bæði þrjóskur og þver, þá lít ég ekki á mig sem óvinnufæran, heldur bara eiga í erfiðleikum með að koma mér á milli staða. Leysi úr þeirri þraut fyrr heldur en síðar.

Er ekki þeirrar gerðar að geta hangið eins og hor upp á vegg og horft á Netflix vikum saman. Tvær til þrjár vikur eru meira en nóg. Þarf að hitta fólk og bretta upp ermar. Annars verð ég geðveikur.

Hef því leigt hnéhlaupahjól út maí. Hækjurnar eru ekki alveg að gera sig fyrir mig nema heima við. Sæki það eftir helgi og vonandi virkar það betur en hækjur og hjólastóll. Og vonandi get ég þannig ferðast með strætó.

Leigubílarnir eru farnir að létta pyngjuna ískyggilega rétt eins og allar heimsóknirnar á sýklalyfjadæludeildina upp á 4.800 kr. í hvert skipti. Verð orðinn öreigi áður en yfir lýkur. Takk ríkisstjórnir síðustu ára fyrir að eyðileggja heilbrigðiskerfið og einkavinavæða það.

Sextugsaldurinn

Jamm. Er skriðinn á sjötta áratug lífs míns með brotið bein á vinstri rist íklæddur plastskó frá Össur h/f og hækjur til beggja handa. Hjólastóllinn er á leiðinni. Bannað að stíga í fótinn næstu tólf vikur. Jeeii!

Eftir grun um smá sýkingu í fæti og ótal heimsóknir á heilsugæsluna ásamt því að innbyrða tugi sýklalyfjatafla og þiggja fimmtán inndælingar í gegnum lyfjalegg í æð, þá áttaði læknir sig og sendi mig í frekari rannsóknir.

Reynist vera með Charcot fót og má ekki stíga í fótinn næstu vikurnar svo hann afmyndist ekki. Eitthvað sem ég er feginn að fá loks að vita eftir að hafa haltrað síðustu þrjár vikur með strætó takk fyrir!

Bráðamóttökubæklunarlæknirinn sinnti mér síðast eftir fjögurra tíma setu á stól með sýklalyf í æð eftir að hafa sinnt öllum skoppandi snjókornunum og foreldrum þeirra sem töldu sig vera brotin eftir íþróttaæfingar síðdegisins.

Hvers konar heilbrigðisþjónusta er það sem leyfir frekum foreldrum að fara fram fyrir beinbrotna einstaklinga og svipta mig almennri og réttri greiningu frá óþreyttum bæklunarlækni! Haltraði um án sannleikans í meira en viku.

Eiga þau að aka á mig!

Stök snilld að vera gangandi vegfarandi á gatnamótum Borgartúns og Kringlumýrarbrautar síðdegis í dag. Vanstilltir og geðvondir ökumenn flautandi í kór eins og fávitar á fólk sem festist milli ljósa. Hvað eiga þau að gera? Gufa upp í andrúmsloftið? Allar akreinar eru fullar. Eiga þau að aka upp á gangstéttina? Á mig!