Lyklaborðsriddarinn

Samkvæmt Begga Ólafs (Bergsveini Ólafssyni) doktorsnema í Kaliforníu, þá er ég víst lyklaborðsriddari. Og á að hætta að tala karlmenn og karlmennsku niður. Að margir þeirra séu að basla og séu varla læsir eftir tíunda bekk. Þeirra vesælddómur er víst mér að kenna.

Allt í lagi, en hverjum er þar um að kenna í raun? Menntakerfinu eða bara þeirri staðreynd að margir strákar nenna ekki að læra heima. Ólíkt stúlkum sem eru upp til hópa samviskusamar og klára heimavinnuna fyrir næsta skóladag meðan gaurarnir eru að dúddast, flissa og dáðst að undrinu milli fóta sér.

Það má alveg tala karlmenn niður og segja þeim að girða sig í brók og drullast til að sinna námi sínu í grunnó, gaggó og menntó. Hver er sinnar gæfusmiður! Þýðir ekkert að benda á aðra.

Þetta væl um að karlmenn verði að fá að vera karlmenn er rúnk frá gömlum tíma þegar karlar voru fyrirvinnur heimilisins og konurnar fastar heima á bak við eldavélina og neyddust til að sjá um heimilishaldið langt fram eftir nóttu meðan karlarnir sátu reykjandi pípu í stofusófanum með blöð dagsins og sjónvarpið fyrir framan sig fram að háttatíma.

Sú verkaskipting er sem betur fer löngu horfin út fyrir hafsins auga. Sorry karlrembur! Heimilishaldið er samvinna nú til dags. Þriðja vaktin hvílir á herðum beggja foreldra. Tvær fyrirvinnur þarf til að reka heimili nú til dags. Og jafnvel fleiri ef vel á að vera.

Annars bara gott hjá Begga að vilja hvetja karlmenn áfram. En mikið væri gaman ef að hann hætti þessu fórnarlambsdæmi. Karlmenn eru enn með gott forskot á konur um leið og við fæðumst. Þarft engar áhyggjur hafa af karlmennskunni á þinni lífstíð.

Skaupið

Skaupið var bara fínt! Fór ekkert sérstaklega í taugarnar á mér. Fullmörg revíusöngatriði a la Flosi Ólafsson, en allt í lagi. Leikskólasketsinn með Fóstbræðrum stóð upp úr. Miðaldra fólk að nýta sér langþráða innlögn sína.

Var ekki alveg að fatta alla þessa gervigreind og partýið hans Villa Neto. Hemmi Gunn endurreistur er ekki fyndni. Maðurinn er látinn. Fullt af ættingjum hans krossbrá við að sjá hann á skjánum. Gervigreind er viðbjóður!

Barbíbíltúr Bjarna Ben. og Kötu lýsir ríkisstjórnarsamstarfinu út í hörgul. Ný ríkisstjórn verður mynduð eftir kosningar í vor.

Forsetaembættið

Flott ákvörðun hjá Guðna og Eliza að hverfa frá Bessastöðum í vor eftir átta ár og tvö kjörtímabil. Algjör óþarfi að daga uppi í slíku starfi.

Lífið býður upp á svo margt fleira. Hjónin eru að byggja sér hús í hrauni ekki svo langt frá og verða áfram Garðbæingar ásamt börnum sínum. Þriðja kjörtímabilið yrði bara endurtekning og leiðindi. Lífið verður að halda áfram.

Persónulega finnst mér að leggja ætti embættið niður og ekki halda kosningar í vor með öllum þeim fjölda trúða sem telja sig þess vaxnir að geta setið á Bessastöðum. 1500 undirskriftir eru allt of lágur þröskuldur til að geta boðið sig fram til forseta lýðveldisins.