Roy Orbison

Roy Kelton Orbison hefði orðið 78 ára í gær hefði hann lifað.  Varð bráðkvaddur 52ja ára endurreisnarárið sitt 1988 með Traveling Wilburys og síðustu sólóplötunni sinni.  Með einstaka rödd milli baritóns og tenórs.  Náði allt að fjórum áttundum.  Óperusöngvari rokksins.  Snilldar lagasmiður en ekki allra.

Texasbúi með einhverja óútskýrða og djúpa tilfinningu í röddinni sem samtímasöngvarar hans bjuggu ekki yfir og dáðu.  Þeirra á meðal voru vinir Roys, Elvis og Johnny Cash.  Samdi marga af sínum fyrstu smellum í bílnum sínum þegar litla fjölskyldan hans bjó við þröngan kost og friður var af skornum skammti í litlu íbúðinni.

Ætíð svartklæddur á sviðinu eins og Cash og síðar með dökk sólgleraugu. Hreyfði sig aldrei í takt við tónlistina. Þjáðist af miklum sviðskrekk og fór að bera dökk gleraugu eftir að hafa gleymt þykku sjóngleraugunum sínum heima eitt giggið.  Litaði ljósleitt hárið á sér svart frá unga aldri.  Rétt eins og Elvis sitt rauðblúnleita hár.

Eftir dauða fyrri konu sinnar og stuttu seinna tveggja elstu sona þeirra fór Roy að bera þýska járnkrossinn um háls sér til minningar um þau.  Krossinn er ekki nasistatákn þó margir haldi það, heldur þýskt heiðursmerki frá miðri nítjándu öld og nú tákn bifhjólafólks.  Roy og Claudette fyrri kona hans deildu ást sinni á mótorfákum, en hún dó af slysförum á einum slíkum.  Synir þeirra brunnu inni meðan Roy var á tónleikaferðalagi.  Aðeins sá yngsti bjargaðist.

Sjálfur kynntist ég Roy í gegnum Traveling Wilburys.  George Harrison hafði kynnst honum á tónleikaferð um Bretland 1963 með Bítlunum og stofnaði súpergrúppuna með honum aldarfjórðungi síðar.  Ég féll gjörsamlega fyrir þessari rödd.  Keypti bæði fjórfalda safnplötu hans og nýjustu afurðina rétt eftir að hann dó blessaður kallinn.  Fór með þennan áhuga eins og mannsmorð og ræddi hann ekki við nokkurn mann.  Fimmtán ára unglingar hlustuðu á eitthvað allt annað og ferskara.  Eða það skilst mér. Kannski voru fleiri krakkar sama sinnis og ég?