Haustið herjar á landann og vetur nálgast. Enn auðveldara fyrir hlussu eins og mig að þramma eða hjóla á milli staða án þess að deyja úr hita. Kvíði þó snjónum. Þá fara göngutúrarnir að taka í bakið.
Hef reyndar meiri áhyggjur af mokstri bæjarins á gangstéttunum. Hefur ekki staðið sem skyldi undanfarna vetur. Moksturinn er mun betri í Reykjavík. Þar er jafnvel mokað um helgar. Í Kópavogi kannski annan eða þriðja dag ofankomu. Eða bara alls ekki.
Göngutúrarnir virðast vera að virka hjá mér. Kílóin leka smá saman af mér. Enn hraðar þegar ég stend mig í mataræðinu samhliða hreyfingunni. Hef það ekki í mér að kaupa kort á líkamsræktarstöð. Myndi aldrei mæta. Get ekki hreyft mig í síldartunnu innan um fullt af öðru sveittu fólki.
Er líka svo gaman að þramma undir beru lofti. Fá súrefni í lungum. Verða smá veðurbarinn. Við erum ekki gerð fyrir svona mikla inniveru. Bíll, hús, bíll, hús. Bifreiðin er vetrarklæðnaður íslenska borgarbúans. 66° Norður og Cintamani eru bara tískufatnaður.
Ég varð þeirri gæfu aðnjótandi að vera blaðberi frá barnæsku fram á unglingsár. Í öllum veðrum. Aldrei kom til greina að sleppa burðinum. Var ekki inn í myndinni. Áskrifendur skyldu fá blaðið fyrir klukkan sjö sérhvern morgun. Hjá mér fengu þeir Moggann fyrir klukkan hálf sjö í síðasta lagi.
Þarna er grunnurinn að göngugleðinni. Um leið og ég náði þolinu aftur upp eru göngur ekkert mál. Frá A til B. Fjölbreyttar leiðir. Útvarp í eyrað og málið er dautt. Skítt með allt fólkið sem missir stjórn á bílunum sínum við að sjá mig arka framhjá.
Frábært hvað þú ert duglegur að fara út að ganga ! :-) Stolt af þér brósi ! :-)))
Takk. Verður vonandi snjóléttur vetur. ;-)