Svo mikið er víst að það verður ekki samið við BHM og hjúkrunarfræðinga. Öryrkjar og eldri borgarar fá ekki túskilding með gati. Bjarni Ben. segir svo og ætlar að standa við það. Gott að fæðast með silfurskeið í munninum og þurfa ekki að kvíða ævikvöldinu.
Allir hrópandi húrra yfir lyftingu gjaldeyrishafta. Jafnvel stjórnarandstaðan mígur á sig af spenningi. Ég ætla að bíða eftir smáa letrinu áður en ég fer að dansa á götum úti. Hér er ekki allt með felldu. Til að mynda virðist eiga að selja bankana aftur fyrir slikk í hendur gæðinga stjórnarflokkanna rétt eins og gerðist fyrir hrun. Orðið á götunni segir að Engeyingar fái annað hvort Landsbankann eða Íslandsbanka á silfurfati. Hér lærir enginn af reynslunni. Síst af öllu þegar helmingaskiptareglan á í hlut.
Þvílík afmælisgjöf sem konur fá frá ríkisstjórninni þegar 100 ár eru liðin frá því að þær náðarsamlegast fengu kosningarrétt. Verkfallsrétturinn tekinn af þeim meðan læknar fengu feita leiðréttingu á sínum launum. Núverandi meirihluti er svo karllægur að það hálfa væri nóg. Hrútalyktin leikur um alla ganga Stjórnarráðsins.
Jóhanna María Sigmundsdóttir, yngsti þingmaður Framsóknar og Alþingis, er svo forn í hugsun að mér hugnast ekki tillaga hennar um að fjölga þingmönnum undir 35 ára aldri. Ekki ef þeir eiga að vera jafn íhaldssamir og leiðinlegir og hún. En það er svar hennar við frábærri tillögu Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um kvennaþing þau tvö ár sem eftir lifir af kjörtímabilinu.