Sumarfrí

Tvær  vikur að baki í Danaveldi að angra ættingja.  Átta ár og eitt hrun síðan síðast og lítið sem ekkert hefur breyst…eða þannig.  Nýrri bílar og nútíma arkitektúr eru þó að ryðja sér til rúms. Annars er flest við það sama.  Þægilegt og rólegt.  Stöðugt og traust.  Einsleitt, flatt og gróðurríkt landslag eins langt og litið er.  Danmörk er fallegt og gott land en ég gæti aldrei búið þar til lengdar.  Sakna þess að geta horft langar leiðir út um eldhúsgluggann hjá mér.  Dreg dýpri anda með víðfeðmi fyrir framan mig.  Enda með innilokunarkennd upp að vissu marki.

Dvaldi reyndar ekki í neinni borg, heldur í tveimur minni bæjum rétt fyrir utan Randers og Aabenraa, í allt of góðu yfirlæti og ofáti.  Var þó farinn að sakna íslensku streitunnar undir það síðasta í dvöl minni. Fjallanna og sjávargolunnar.  Fjölbreytileika birtunnar.  Allra apaheilanna sem kjósa vitlaust á fjögurra ára fresti og ég elska að hata.  Ég má ekki láta líða svona langt á milli heimsókna. Ekki mikið mál að fara oftar og dvelja skemur í hvert sinn. Jafnvel þó ég þoli ekki að ferðast.

Finnst alltaf svolítið erfitt að gista inn á fólki.  Jafnvel mínum nánustu ættingjum. Líður best einn með sjálfum mér þó frábært sé að hanga með klaninu sem lengst þegar maður er í heimsókn.  Tilgangurinn með því að þræla sér til ættingja í öðrum löndum er einmitt að verja sem mestum tíma með þeim.  Annars  myndi maður bara þramma milli safna og skemmtigarða.  Eitthvað sem við gerum ekki einu sinni heima hjá okkur.

Hef einmitt hugsað mér að ferðast aðeins innanborgar restina af sumarleyfinu mínu. Gerast ferðamaður í eigin bakgarði.  Skoða bæinn minn og borgina okkar. Anda að mér sjávargolunni, njóta allt of dýrra drykkja og matar, og safna freknum á skallann.  Það er að segja ef rigningin hefur ekki fylgt mér frá Danmörku.

1 athugasemd á “Sumarfrí

  1. Takk kærlega fyrir heimsoknina elsku brosi ! ❤️ Mikið var nú gaman að fa þig og mömmu til min ! 😍 En alltof stutt stopp …þu verður lengur næst ! 😉👍🏻 skil þig svo vel að með það að gista hja ættingjum og að það geti stundum verið erfitt …er svona líka ! 😳 Knus, Kolla systir i DK .

    P.s gleymi svo oft að þu sért með þessa síðu , en eg fer öðru hverju inn a hana og finnst gaman að lesa það sem þu skrifar . 😊👍🏻

Skildu eftir svar við Kolbrún Fjóla Kristensen Hætta við svar