Dröslaðist loksins í Costco í gærmorgun. Fékk mynd af mér prentaða á kortið mitt. Skreiddist inn með allt of stóra kerru. Leit augum dýrðina … sem var svo nákvæmlega engin.
Skil ekki af hverju hafa verið stofnaðar að minnsta kosti þrjár fésbókarsíður til heiðurs þessari ensku sjoppu. Þetta er langt í frá bandarísk búð. Breskur gaur sem talaði ensku sem ég skyldi ekki sat fyrir mér við útganginn og heimtaði kortið mitt og strimilinn. Leið eins og ég væri staddur í Þriðja Ríki Hitlers og alls ekki velkominn aftur. Að vísu var afgreiðslumaðurinn og konan sem raðaði vörunum aftur í kerruna mjög vingjarnleg og ég þakkaði þeim sérstaklega fyrir.
Fann fátt sem mig vantaði eða langaði í nema kannski makkarónu- og ostarétt sem smakkaðist reyndar vel. Þarna er allt í ofurstærð. Fínt fyrir stórar fjölskyldur og veislur en hentar mér frekar illa þar sem ég er einstæðingur og á enga frystikistu.
Á ekki erfitt með að trúa frétt DV þar sem fyrrverandi starfsmaður lýsir gengdarlausri sóun og slæmri umhverfisstefnu þar sem öllu er hent í sama gáminn lítið skemmdu og varla komið á síðasta söludag.
Efast stórlega um að ég nenni að versla þarna aftur. Kannski kom ég of seint á staðinn og varð ekki vitni að öllum ódýru verðunum sem birtust í vor. Þau eru að minnsta kosti horfin núna. Verður samt ekki af Costco tekið að hafa lækkað verð og aukið samkeppni. Kveikt elda samkeppni sem var varla til áður. Hvort það ástand mun endast á eftir að koma í ljós.
Hef aldrei komið inn í bandaríska Costco, en einhverra hluta vegna trúi ég að hún sé mun betri en sú breska, síður sjoppulegri og með betra úrval og verð. Og fólk við útganginn sem kann skiljanlegri ensku.
Brunaði í nýuppgerða Bónus á Smáratorgi á heimleiðinni. Gladdi mig mun meira heldur en Costco. Búið að snúa henni við og stækka. Vel úthugsuð með þarfir viðskiptavina í huga. Gott ef sum verðin hafa ekki lækkað smá. Held áfram að fara þangað í framtíðinni.