Ég verð sífellt fráhverfari því að ferðast með stætó. Sérstaklega yfir sumartímann þegar færðin er góð og veðrið stundum líka. Þá er þess virði að nota tvo jafnfljóta í staðinn þótt það taki lengri tíma.
Ef ég sting ekki heyrnartólum í hlustirnar í strætó neyðist ég til að hlýða á fólk öskra í símana sína á þremur til fjórum óskyldum tungum, gelgjur hlusta á síðasta smellinn á fullu blasti og einhvern furðufugl aftast í vagninum að æfa sig á gítarinn sinn.
Ekki beint kjöraðstæður fyrir innhverfan einstakling með félagsfælni á háu stigi sem þarf að hafa stjórn á umhverfi sínu öllum stundum. Kannski að ég prófi hlaupahjólin.