Kisur eru stikkfríar og mega allt

Kvartaði og kveinaði og fékk vonandi varanlega úrlausn minna mála. Hefði átt að setja fótinn niður mun fyrr og losna við margra mánaða þjáningar. En ég beið alltaf í þeirri von (og undir loforði) að viðkomandi yrði fluttur um set. En það gerðist aldrei svo ég neyddist til að minna á mig með látum. Ræskja mig hressilega.

Verður bara að hafa það þó einhver fattlaus frekja fari í fýlu út í mig. Viðkomandi hlýtur að vera meira en lítið úti að aka ef hann trúir því staðfastlega að hann hafi verið velkomin inn í lokað, þröngt og lítið vinnurými annarra talandi við sjálfan sig, syngjandi, hrópandi og hummandi allan liðlangan daginn eins og geðsjúklingur. Hamrandi á lyklaborðið eins og trommusett þegar hann var pirraður og baulandi eins og naut út í loftið. Satt best að segja held ég að honum hafi bara verið nákvæmlega sama.

Hef oftar en einu sinni staðið sjálfan mig að því að vera með óvelkomið humm viðkomandi í hausnum á mér eftir að vinnudegi líkur. Fékk jafnvel martröð eitt sinn þar sem hann var fluttur inn á mig og búinn að yfirtaka svefnherbergið og sparka mér út í stofu. Bara af því að honum fannst það í lagi og var alveg drullusama.

Fyrir kvartið varð mér hugsað til katta sem ég hef séð setjast á hausinn á öðrum köttum til að niðurlægja þá. Stebba geitar þegar hann hlunkaði sér þétt upp að mér á biðskýlisbekk á Nýbýlaveginum. Freka kallsins á kassanum í Nettó sem neitaði að borga fyrr en hann væri búinn að setja vörurnar í poka. Hurðaskelli sem býr fyrir neðan mig.

Hef reyndar látið Hurðaskell heyra það svo jarðskjálftanir hafa aðeins minnkað fyrir neðan mig. Sé mikið eftir að hafa ekki skallað Stebba geit og freka kallinn í Nettó á sínum tíma. Kisur mega hins vegar allt og eru stikkfríar.

.

Eddie got fingered

Ég verð bráðum fimmtugur. Barnlaus einstæðingur sem er búinn að fá nóg af því leyfa fólki að vaða yfir mig á skítugum skónum. Hef undanfarið meðvitað farið að snúa við eftirlátsemi minni gagnvart frekju og yfirgangi samferðafólks. Láta í mér heyra þegar mér mislíkar hegðun annarra gagnvart mér. Leiðrétta kúrsinn.

En samt allt án þess að beita hnefanum eins og faðir minn heitinn hefði hiklaust gert. Og það er sennilega ástæðan fyrir þessari tilhneigingu minni að bakka frekar en að láta á reyna gagnvart föntum og frekjum í gegnum tíðina. Ég vildi ekki verða faðir minn kýlandi mann og annan.

Nú er tíðin önnur. Fer fyrstur inn í vagninn í stað þess að hleypa öllum túristunum og hipsterunum á undan mér. Kvarta eins og stunginn grís vegna ónæðis nágranna og vinnufélaga. Sýni frekum bíldónum löngutöng þegar þeir gera sig líklega til að rúlla yfir mig á gatnamótum.

Lífið er allt of stutt til að leyfa einhverjum rasshausum að vaða yfir mann.

Verður ekki fallegt

Minn helsti ljóður er að ég er allt of eftirlátsamur. Umber slæma hegðun gagnvart mér allt of lengi í þeirri von að hún batni með tímanum. Sem hún gerir náttúrulega aldrei.

Klassísk hegðum barns alkahólista. Hin eilífa von um betri tíð eftir síðustu helgi Helvítis. Að næsti föstudagur verði betri; laugardagur skárri og sunnudagur jafnvel góður. En sjaldnast rættist sú von.

Ofeldaður lambahryggur sem enginn hafði lyst á seint á sunnudagskvöldi í ofninum. Skítþunnir foreldrar enn undir sæng.

Og nú er svo komið að ég neyðist til að láta af eftirlátseminni og gerast ákveðinn. Setja niður fót og segja hingað og ekki lengra! Að ég láti ekki bjóða mér svona aðstæður lengur.

Það verður ekki fallegt og þið verðið að fyrirgefa mér eigingirnina og ofbeldið.