Haustið langa

Tvær vikur liðnar af mánaðar sumarleyfi.  Rigning, rigning, rigning, þoka, ský, sólardagurinn, rigning, rigning, rigning og rigningu spáð eins langt fram í tímann og sést.

Kæmi mér ekkert á óvart að sjá svarta górillu ganga framhjá eldhúsglugganum.  Höfuðborgarsvæðið er orðið að stórum regnskógi.

Kannski að maður ætti bara koma sér aftur í vinnu og fresta restinu af fríinu.  Júlí verður varla skárri.  Hvað þá ágúst.

Sennilega skelli ég mér þó bara á útsölurnar og reyni að finna einhvern léttan regnjakka á ferlíkið mig.  Þarf enga úlpu.  Mér er alltaf heitt.

Motor City, Iceland

Fyrst leyst mér nokkuð vel á hugmyndir um borgarlínu í gegnum helstu umferðaræðar höfuðborgarsvæðisins.  Þar til að kom í ljós að línan mun þrengja mjög að einkabílnum á stofnæðum, fækka akreinum og reynist bara vera langur strætisvagn með sinn eigin veg á milli hinna akbrautanna.  Hvernig eiga farþegarnir að komast á annan hvorn bakkann?  Væntanlega í gegnum undirgöng.  Gangbrautir myndu tefja umferðina um of.

Af hverju eru ekki bara keyptir fleiri harmonikkuvagnar, fleiri venjulegir vagnar og ferðum fjölgað.  Málið dautt!

Eins og fólk fari að fórna bílnum fyrir extra langa rútu sem brunar aðeins oftar fram hjá næstu biðstöð.  Íslendingar elska bílinn sinn og munu aldrei sleppa af honum takinu frekar en bændur fyrri alda klárnum sínum.

Mun raunsærra að fjölga enn frekar hjólreiða- og göngustígum.  Og náttúrulega mislægum gatnamótum.  Bjánaskapur að trúa því að hægt sé að senda umferðina í stokk og borgarlínu ofan á.  Allt of dýr framkvæmd fyrir fámennt þorp eins og höfuðborgarsvæðið þar sem 4% íbúa dröslast með strætó.

Guns n Roses

Ég varð rosalega spenntur þegar fréttist að gömlu rónarnir í Guns n Roses ætluðu að heiðra okkur með nærveru sinni í sumar.  Klára túrinn sinn á Íslandi.

Einhverjir fimm þúsund kjaftar eru búnir að kaupa miða eftir einhverjum krókaleiðum og í gegnum póstlista Secret Solstice.  Restin af smáborgurunum fær að strauja kortin fyrsta maí.  Vonandi verður uppselt.  Alltaf gaman að fá frægar hljómsveitir á klakann.

Viðurkenni að ég var í fyrstu ákveðinn að fara, en svo renndi ég yfir katalókinn þeirra og komst að því að ég nenni ekki að mæta fyrir eitt lag; November Rain.  Sem er í raun eina lagið sem eitthvað er eitthvað varið í og inniheldur stórkostlegt gítarsóló Slash í lokin.

Plús það að ég meika ekki að hanga í einhverri síldartunnu á miðjum Laugardalsvelli fyrir tuttugu þúsund kall í þrjá tíma.  Og er of nískur til að bæta við tíu til þrjátíu þúsund krónum fyrir að sitja í stúku og horfa á hlið á einhverja risaskjái.

Hefði frekar viljað sjá þá á Coachella um árið.

Ókei!  Ég nenni einfaldlega ekki á tónleika.  Þoli ekki svona þrengsli, hita og svitalykt.  Ætlaði á Foo Fighters í fyrra en hætti við af sömu ástæðum.  Jafnvel þó tónleikarnir væru undir beru lofti.

En góða skemmtun þið hin!