Okurlandið

Að okra á næsta manni virðist vera dyggð á Íslandi.  Allt er svo dýrt hérna vegna flutningskostnaðar yfir hafið.  Rétt eins og sjórinn gleypi annað hvert skip og flugvél sem reyna að komast hingað með vörur frá Kína.  Engu líkara en að þýskir kafbátar herji enn á skipalestir til og frá  Evrópu.  Að fórnarkostnaðurinn sé þess vegna svo hár.

Jafnvel þó að vörugjöld og tollar á flestu öðru en matvöru sé felldur niður, þá lækka verðin voða lítið í búðunum og genginu er kennt um.  Svona hefur þetta alltaf verið og heildsalar og verslunareigendur eru ekkert að fara breyta því á næstunni.  Vilja frekar okra heldur en að bjóða sanngjörn verð og fá í kjölfarið fleiri viðskiptavini.

Sennilega einhver veila sem lærðist af dönskum einokunarkaupmönnum fyrri alda. Veit það ekki.  Við virðumst alltaf vera til í að reka rýting í bakið á hverju öðru í von um smá ávinning.  Skiljum ekki að hagur allra vænkast með sanngirni í viðskiptum.

Ríkið tekur fullan þátt í okrinu með því að hirða meginandvirði áfengisins, sem við verslum með hundshaus og asnaeyru í búðum þess, í formi skatta og gjalda.  Bera svo fyrir sig neyslustýringu, heilsuverndarsjónarmið og forvarnir. Stinga reyndar megninu inn á sig og eyða í sendiráð, nefndir eða álíka vitleysu.  Aldrei velferð.

Húsaleigubætur verða að húsnæðisbótum um áramótin.  Hækka vonandi hjá þeim tekjuminni.  Leigusalar eru nú þegar farnir að boða hækkun á leigu í janúar til að hirða ávinninginn af þeim sem mest þurfa á honum að halda.  Talandi um skítlegt eðli.

Og nú eru blessaðir bjargvættirnir okkar, ferðamennirnir, byrjaðir að kveikja á perunni. Að Ísland sé land okrara og gullgrafara.  Einstaklinga sem eru sífellt á vertíð en plana ekkert fram í tímann til að halda í viðskipti ferðalanga sem hingað slæðast fyrir eitthvert kraftaverk.  Guð veit að hér er ekkert að sjá.  Reykjavík er ljót og lágrisin borg.  En Ísland hefur reyndar upp á margt fallegt að bjóða.  Er bara svo dýrt að sjá það með hjálp íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja.

Svo var einhver ferðaþjónustuaulinn að væla nýlega í fjölmiðlum að engin norðurljós væru sýnileg vegna vorveðurs.  Rétt eins og einhverjum væri um að kenna og sá ætti að skrúfa frá frostinu og snjónum án tafar.

Norður-Dakóta

http://www.ruv.is/frett/motmaelendum-i-n-dakota-gert-ad-ryma-tjaldbudir

https://www.washingtonpost.com/business/republican-senator-pipeline-protesters-should-leave-camp/2016/11/26/a53051bc-b3f3-11e6-bc2d-19b3d759cfe7_story.html

Gráðugir olíubarónar ætla að vaða yfir helg lönd og vatnsból Sioux indíána í Norður-Dakóta með olíuleiðslu sína.  Enn er verið að níðast á frumbyggjum Ameríku.  Væri ég ríkur og frægur maður með gítar og sæmilega rödd myndi ég umsvifalaust mæta á slétturnar og sýna samstöðu.

En kannski þarf ekki frægð og ríkidæmi.  Af hverju tekur ekki venjulegur launaþræll upp á Íslandi með mögulega smá indíánablóð í æðum sér vetrarfrí og brunar til Bandaríkjanna til að styðja við systur sínar og bræður í Sioux ættbálknum!

Djöfull langar mig.  Þoli ekki svona yfirgangsseggi með spillt stjórnvöld að baki sér sem níðast á fólki sem hefur þurft að þola meira en nóg í gegnum aldirnar.

Hugur minn er hjá Sioux indíánunum og stuðningsfólki þeirra við Cannon Ball í Norður-Dakóta.  Nóg er komið af níðingsskap gagnvart þessum verndurum landsins.

Hófleg drykkja bjargar lífum!

Í hræðslu sinni, fávisku og heimsku kýs fólk yfir sig fasista, kvenhatara og illmenni. Það gerðist í henni Ameríku fyrir rúmri viku síðan.  Það gerðist hérlendis þegar 40% þjóðarinnar hélt áfram trúnaði við sjálfgræðgislið og eiginhagsmunapotara fráfarandi stjórnarflokka.

Aumt að horfa upp á þjóðarleiðtoga óska Prump til hamingju og vænta þess að samstarf þjóðanna verði áfram gott.  Geta gleymt því.  Maðurinn hefur aldrei reykt eða drukkið alla sína ævi.  Þannig mönnum er ekki treystandi.  Og varla lýgur sjálfur Sinatra um slíkt.

Sjáið bara helvítið hann Hitler sem át bara gras, reykti ekkert og snerti aldrei áfengi. Leiddist svo rosalega að hann fór í stríð gegn öllum nágrönnum sínum og var með tóm leiðindi sem kostuðu milljónir lífið.

Hófleg drykkja bjargar lífum!