Öldin okkar

Var eiginlega pínlegt að horfa á Loga Bergmann Eiðsson halda því fram hjá Gísla Marteini að allir stjórnmálamenn væru að vinna fyrir fólkið landinu þegar vitað er og sannað að svo er ekki.  Bjarni Ben., sem konan hans Loga aðstoðar, er að vinna fyrir Engeyjarættina.  Jón Gunnarsson er að vinna fyrir útgerðina.  Gunnar Bragi fyrir skagfirska efnahagssvæðið. Sigmundur Davíð fyrir pabba sinn og Kögun.  Og svo framvegis.

Megnið af þessu liði á Alþingi er að vinna fyrir aðra en mig og þig.  Helst fyrir eigin hagsmuni og þeirra sem greiddu þeim leið að þingsæti.  Fulltrúalýðræðið er barn síns tíma. Ætti fyrir löngu að vera búið að leggja það niður eins og sendiráðin.

Á tækniöld eins og okkar ætti ekki að vera erfitt að kjósa um stærri mál úr fartölvunni sem hvílir á eldhúsborði hvers heimilis.  En það vill fjórflokkurinn auðvitað ekki.  Hvernig eiga þau þá að geta sukkað og svínast.  Skarað eld að eigin köku?

Vika er langur tími í stjórnmálum

Vika þar til maður neyðist til að dröslast á kjörstað og merkja við einhvern listabókstaf.  Er búinn að vera óviss lengi og við það að krossa við Samfylkinguna af gömlum vana undir þeim formerkjum að þar leynist enn leifarnar af Alþýðuflokknum.  Sem er tómt rugl.

Veit að minnsta kosti að Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Viðreisn (Litli Sjálfstæðisflokkur) fá ekki atkvæði mitt. Og ekki Björt Framtíð því hún er opin í báða enda.

Líst hinsvegar best á Alþýðufylkinguna af minnstu framboðunum.  Albaníu-Valdi fékk mig til að skrifa undir stuðningslista fyrir utan Bónus á Smáratorgi fyrir viku síðan. Viðurkenni að hafa verið aðeins kenndur nýkominn úr haustferð vinnunnar.

En já, ég hef loksins ákveðið mig.  Píratar fá minn stuðning.  Eru ekki aðeins óhefðbundin í nálgun sinni, heldur eini möguleikinn á annarri stjórn en pabbadrengjastjórninni sem hér hefur ríkt síðastliðin þrjú ár og fitnað eins og púkinn á fjósbitanum.  Píratar verða að ná flestum atkvæðum og fá stjórnarmyndunarumboðið frá Guðna Th. Jóhannssyni forseta.

Annars verður eignarhlutur ríkissins í bönkunum seldur á útsöluverði í helmingaskiptum. Heilbrigðiskerfið endanlega einkavinavætt.  Menntun einungis gerð möguleg fyrir efnafólk.  Aldraðir og öryrkjar enn einu sinni skyldir eftir út í skurði.  Útgerðin áfram með frítt spil.  Landbúnaðarkerfið áfram spillt og lokað. Innflutningur heftur með ofurtollum.

Ég meika slíkt ekki lengur!

 

Miðjusætið

http://www.visir.is/sjadu-oborganleg-vidbrogd-farthega-eftir-ad-sessunauturinn-endurheimti-fremur-harkalega-saetisarminn/article/2016161029706

Djöfull kannast ég við þessa stemningu síðan í sumar þegar ég dröslaðist til Danmerkur og neyddist til að sitja báðar ferðirnar í miðjunni með hendur í skauti og lærin límd saman.

Til Danmerkur hlammaði smávaxinn gaur sér við gluggann svo ég var vongóður. En nei, stubbur svaf alla leiðina til Köben með útglennta fætur og risavaxinn pung. Ekki nokkur leið að stugga við honum plús að armarnir voru hans.

Frá Danmörku var mun skárra.  Hávaxinn gaur sem var ekkert að breiða úr sér meira en að hann þurfti eða var með frekju.  Spjölluðum saman alla leiðina.  Hann var á leiðinni í Laugavegshlaupið og ég þekkti stjúpföður hans heitinn.

Besta var að ég átti sæti við ganginn báðar ferðirnar en eftirlét það nánum ættingja.  Eitthvað sem ég hefði ekki getað gert fyrir nokkrum árum þegar félagsfælnin var  að gera út af við mig.  Svo kannski ætti ég að hætta þessu röfli og vera þakklátur.