Menningarnótt

Skrattaðist hálffimm í strætó niður í bæ með mömmu og brósa eins og síld í tunnu. Þrömmuðum niður Hverfisgötu, gegnum Aðalstræti, yfir Austurvöll og í Hljómskálagarðinn þar sem Geiri Sæm var að gaula.  Leiðir skildust skömmu seinna þegar Friðrik Dór fór að væla í hljóðnemann.

Nennti þessu ekki lengur og brunaði með fyrsta vagni frá BSÍ upp á Hlemm þar sem múgur og margmenni biðu bæði eftir leið 2 og 4 sem áttu að fara heim í Hamraborg eftir tæpan hálftíma.  Sætti mig ekki við þetta og splæsti því í leigubíl í staðinn.

Skil ekki þessa áráttu að elta ókeypis strætó kjaftæði.  Kostar ekki nema 420 kr. fyrir fullorðinn einstakling í vagninn aðra daga.  Margföldum það með fjórum einstaklingum og smyrjum aðeins meira ofan á og þú færð svipað út í topp þægindum upp að dyrum með leigubíl. Plús að við notum leigubílana allt of lítið.

Annars var ágætt að renna í gegnum miðbæinn og drekka í sig stemninguna. Sérstaklega af því að ég nennti engan veginn niður eftir.  Er meira fyrir að fara fyrr um daginn og skoða mig um í hliðargötum jafnt sem aðalgötum í rólegheitum. Geri það kannski að ári og næ að skoða Grandagarð í leiðinni.

Friðhelgin

Ljótt að sjá hvernig fjölmiðlar og netheimar ráðast gegn elstu dóttur nýkjörins forseta fyrir að endurvekja kynlífsblogg sitt.  Af hverju má hún ekki vera í friði með sitt áhugamál?

Rosalega skrítið að illa innrætt fólk skuli veitast að frumburði forsetans og úthrópa hana sem kynlífsfíkil vegna þess eins að hún hefur áhuga á því og langar að verða kynlífsráðgjafi í framtíðinni.

Fram að þessu hafa fjölskyldur opinberra aðila notið friðhelgi og fengið að lifa sínu lífi án afskipta fjölmiðla.  Af hverju má svo ekki vera áfram?

Flugdólgurinn

Lögreglan á Suðurnesjum hefur átt fullt í fangi með flugdólga þessa vikuna. Ölvaða einstaklinga sem ónáða samfarþega sína í himinloftunum.

Hef aldrei skilið þessa áráttu fólks að drekka sig út úr heiminum þegar það flýgur milli landa.  Letinginn ég myndi aldrei nenna þessu því það eru svo fá salerni í flugvélum.  Þoli ekki biðraðir.  Þoli ekki að standa upp úr miðjusætinu í spreng.

Grunur minn segir mér að flestir flugdólgar þjáist af flughræðslu og ættu að fara á námskeið til að vinna úr hræðslu sinni.  Algjör óþarfi að gerast flugdólgur og fara í taugarnar á samfarþegum sínum.