Risaeðlur Bessastaða

Í fullkomnara samfélagi stæði baráttan um Bessastaði án aðkomu Ólafs Ragnars eða Davíðs Oddssonar, en sögur segja að sá síðarnefndi muni tilkynna um framboð sitt fyrir hádegi í dag hjá Páli Magnússyni á Bylgjunni. Vonandi er sú flökkusaga djók, lygi eða bara blautur draumur Hannesar Hólmsteins.

Hvers vegna getur gamla Ísland ekki látið af völdum og farið á eftirlaun. Hvaða endemis frekja er þetta eiginlega?  Verður að tryggja að núverandi stjórn geti sölsað undir sig fleiri ríkiseignir á spottprísi áður en hún neyðist til að láta af völdum?  Verður varðhundur og klappstýra Sjálfstæðisflokks og Framsóknar að sitja á Bessastöðum á meðan þeir glæpir verða framdir gegn Íslendingum?

Skynsöm þjóð myndi hunsa gamlar risaeðlur og kjósa milli allra hinna frambjóðendanna. En ekki Íslendingar.  Við leitum þangað þar sem við erum kvöldust og pössum okkur á að heiðra skálkinn svo að hann skaði okkur ekki.

Þrælslund okkar og ótti við breytingar munu sjá til þess að gamall durgur mun sitja á Bessastöðum næstu fjögur árin.  Hvort það verður Ólafur eða Davíð skiptir minna máli. Þeir eru tvær hliðar sama peningsins.  Frambjóðendur spillta Íslands sem geymir eigur sínar í skattaskjólum og eftirlætur okkur hinum að greiða fyrir samneysluna.

Næsti forseti

Hef sjaldan verið spenntari fyrir forsetakosningum og núna.  Æstist reyndar aðeins upp fyrir fjórum árum með framboði Þóru en það náði ekki nógu háu flugi því stjórnmálalið af vinstri vængnum stýrði framboðinu með „Þórudeginum“ og annarri álíka vitleysu. Hún náði  aldrei að losa sig við Alþýðuflokks- og Samfylkingarstimpilinn.

Guðni Th. Jóhannesson verður seint tengdur við einhvern einn stjórnmálaflokk eða klíku, þó svo mig gruni hann um að vera meiri hægrimann en vinstri.

Guðni nær jafnt tengingu við okkur sem erum landlaus í íslenskri pólítik og annarra landa okkar sem eru að  sigla milli skers og báru sérhvern dag og reyna að ná landi. Hann er eins og við hin.  Fimm barna faðir, með fjögur i leik- og grunnskóla.  Hjólar með þau þangað og ætlar að halda því áfram nái hann til Bessastaða laugardaginn 25. júní.

Loksins er kominn frambjóðandi sem fólk getur mátað við Bessastaði í staðinn fyrir risaeðluna sem hefur setið þar i tvo áratugi og neitar að fara. Skemmtilegur og heillandi maður sérfróður um forsetaembættið og býsna fróður um ýmislegt annað. Fjölskyldumaður.   Rithöfundur og fræðimaður. Drengur góður.

Andri Snær Magnason er líka góður drengur en bara aðeins of upptekinn af málum umhverfisins.  Hann er eins máls forsetaframbjóðandi eins og Ólafur Ragnar í stað þess að vera tilbúinn að starfa fyrir alla þjóðina eins og Guðni.

Forseti Íslands á ekki að kljúfa þjóðina í fylkingar, heldur sameina hana.

Hugrekki kjósenda

Sá myndband með ræðu frá Bernie Sanders á facebook þar sem hann áréttaði að eina sem þyrfti til að breyta heiminum væri hugrekki kjósenda til breytinga og vilji þeirra til að velja aðra en sama sveitta fólkið til áhrifa.  Meirihluti kjósenda ræður eins og sjálfskipaði konungurinn á Bessastöðum þreytist ekki á að nefna.  Hann mun komast illilega að því í lok júní ef við sem teljum kominn tíma á kynslóðaskipti andskotumst til að fjölmenna á kjörstað.

Þó Bernie blessaður vinni ekki forval Demókrata, þá er ekkert sem getur stöðvað hann í að bjóða sig fram sem óháður.  Verst að það getur klofið fylgið og gagnast helvítinu Trump og komið honum endanlega í Hvíta húsið.  En er hann eitthvað verri en Clinton þegar upp er staðið?  Skiptir einhverju máli hvor Wall Street klappstýran vermir stól forseta Bandaríkja Norður-Ameríku?

Væntingar heimsins vegna kjörs Obama á sínum tíma voru miklar en það var ekki eins og hann breytti heiminum þrátt fyrir sjarma sinn og víðsýni.  Kerfið er bara stærra en svo að stakur einstaklingur geti haft mikil áhrif til batnaðar. Embættismannakerfið stjórnar öllu óhað úrslitum kosninga.

Enn skjóta Kanar hvorn annan á götuhornum fyrir minnstu sakir með aðra stjórnarskrárs-viðbótina frá 1791 upp á vasann, sem veitir þeim rétt til að ganga með vopn til að verja sig. Enn eru reknar fangabúðir fyrir meinta hryðjuverkamenn á syðsta odda Kúbu.  Enn komast löggur upp með að skjóta fólk með dekkri húð til dauða og spyrja þau svo spurninga.  Enn eru dauðarefsingar við lýði í 31 ríkjum Bandaríkjanna af alls 50.

En svona er Ameríka.  Snúum okkur að skerinu í miðju Atlantshafi.  Fyrir þremur árum kaus helmingur þjóðarinnar yfir sig ríkisstjórn með eigur sínar í aflandsfélögum í gegnum vafasama lögmannsstofu í Panama. Forsætisráðherrafíflið með eða án doktorsgráðu hrökklaðist frá völdum og einhver sveitavargur tók við því fjármálaráðherrann gat það ekki með sína erlendu reikninga í skattaskjólum og skráningu sína á framhjáhaldssíðu Ashley Madison sem Icehot1.

Þetta lið neitar að skila lyklunum þrátt fyrir fjölmennustu mótmæli sögunnar og ætlar að hanga á völdunum eins lengi og þau geta til að geta selt bankana í hendur „réttra“ aðila fyrir spottprís.  Einnig til að geta rutt í gegn 10 ára búvörusamningi sem þjónar engum nema Framsóknarflokknum.

Ekkert skrítið að máltæki eins og „þangað leitar klárinn þar sem hann er kvaldastur“ og „heiðra skaltu skálkinn svo hann skaði þig ekki“ séu vinsæl á Íslandi.  Við virðumst lifa eftir boðskap þeirra.